Lífið

Mamma varð alveg brjáluð

Sólveig Gísladóttir skrifar
Mynd frá 1980 eftir listamanninn Paul Jasminne.
Mynd frá 1980 eftir listamanninn Paul Jasminne.
Rokkabillígoðsögn Stephen Dennis Smith, betur þekktur sem rokkabillítónlistarmaðurinn, bassaleikarinn og útvarpsmaðurinn Smutty Smiff, er sannfærður um að að tattúin hafi fleytt honum áfram í tónlistarheimi New York-borgar á áttunda áratugnum.

Fjórtán ára gamall, árið 1973, sat Stephen Dennis Smith við eldhúsborðið heima hjá sér ásamt félaga sínum. Mamma hans var ekki heima. Vinurinn hafði verið að æfa sig að tattúera Mikka mús á kartöflu og þóttist orðinn nokkuð sleipur og spurði Stephen hvort hann mætti ekki teikna á höndina á honum. Ekkert var sjálfsagðara og þannig fékk Stephen Smith sitt fyrsta tattú.

Smutty er með mynd eftir Salvador Dalí á bakinu. Þessi mynd var tekin í Los Angeles árið 1983 af stjörnuljósmyndaranum Greg Gorman.Mynd/Greg Gorman
„Mamma varð alveg brjáluð og ég laug því að henni að þetta færi af. Hún vissi auðvitað betur og sagði: „Við skulum sjá til með það,“ dró mig að vaskinum, greip skrúbb og fór að skrúbba Mikka mús. Ég öskraði en hún sagði rólega: „Skrítið, þetta næst ekki af, ha?“ Þannig lýsir tónlistarmaðurinn Smutty Smiff fyrstu reynslu sinni af húðflúri en ófá hafa bæst við síðan þá. 

Þegar hann er spurður hvað tattúin séu orðin mörg svara hann eins og skot: „237 og hálft.“ Þegar blaðamaður hváir skellir Smutty upp úr. „Nei, ég hef ekki hugmynd um hvað þau eru mörg,“ segir hann glettinn og rífur sig um leið úr skyrtunni til að sýna húðflúrin sem þekja efri hluta líkamans. Þau eru af ýmsum toga, stór sem smá og Smutty bendir sérstaklega á Krist á krossinum sem hann ber á bakinu. „Þetta er eftir málverki Salvadors Dalí,“ útskýrir hann.

Tattú var tabú

Smutty fæddist í Essex á Englandi og á unglingsárunum var hann svokallaður Teddy Boy, sem var mjög vinsæll stíll á áttunda áratugnum sem dró dám af spjátrungum á tímum Játvarðs konungs.

„Þeir sem aðhylltust Teddy Boy-stílinn voru allir með tattú og því fylgdi ég með. Svo hafa tattú alltaf verið vinsæl á Englandi og hafa tengsl við fótbolta og verkamenn,“ lýsir Smutty sem stakk af til Bandaríkjanna með hljómsveit sinni á áttunda áratugnum. „Þar var enginn með tattú. Eina fólkið sem var húðflúrað voru fangar, Vítisenglar og sjóliðar. Fólk varð því mjög hissa að sjá mig og var oft hrætt við mig. Sumir stoppuðu bílana sína til að taka myndir af mér því ég þótti svo skrítinn. Að auki var ég málaður með uppgreitt hár sem bætti ekki úr skák,“ segir hann og hlær. 

Hér stendur Smutty á bassanum sínum fyrir utan Tropicana hótelið í Los Angles árið 1978.Mynd/Janette Beckman.
Miði að velgengni

Greiddu tattúin leið þína í tónlistarbransanum? „Algjörlega. Ég skar mig úr og þess vegna var ég tekinn inn í samfélag þeirra sem bar mest á í tísku- og listaheiminum á þessum tíma,“ segir Smutty sem telur sig vera heppinn að hafa kynnst umboðsmanni sínum, Leee Black Childers, þegar hann var sautján ára. „Hann var gömul drottning, sýningarstjóri Andy Warhol, fjölmiðlafulltrúi Davids Bowie og umboðsmaður Iggy Pop. Hann kom mér í hljómsveit og kynnti mig fyrir öllu svalasta fólki þess tíma. Þar sem ég var svona skrítinn, tattúeraður og myndarlegur strákur vildu margir taka af mér myndir.

Þannig tók Robert Mapplethorpe af mér myndir tvisvar sinnum og hangir ein þeirra upp í Tate Modern-listasafninu í London,“ segir Smutty sem varð einnig góður vinur Andy Warhol. Fleiri frægir ljósmyndarar hafa spreytt sig á að mynda Smutty, til dæmis Mick Rock sem hefur myndað David Bowie en auk þess hefur hann verið á forsíðum allra helstu tattútímarita heims og í Rolling Stone.

Skuggamynd í uppáhaldi

Af öllum húðflúrum Smuttys eru nokkur í uppáhaldi. „Til dæmis það sem ég fékk í afmælisgjöf árið 1980. Vinur minn gerði skuggamynd af mér að spila á bassann en konan mín er með sams konar tattú. Þá er ég líka með hlébarða á öxlinni sem er lógó hljómsveitar minnar, Rockats. Og svo eru það hjarirnar,“ segir hann og beygir og réttir hendurnar svo glittir í myndir af hjörum í báðum olnbogabótum. 

En sérðu eftir einhverjum tattúum? „Já, mörgum. Svipað og ég sé eftir fjölmörgum hjásvæfum,“ segir hann og skellihlær. „Þegar ég byrjaði var listin komin svo stutt á veg. Fyrstu tattúin fékk ég hjá Vítisenglum í bakhúsi í London. Þar notuðu þeir sömu nálina allan daginn og skoluðu af henni í skítugum bolla.“

Smutty er mjög líflegur kontrabassaleikari eins og sést á þessari mynd sem tekin var í London árið 1980.Mynd/Janette Beckman
Hjá tattúmeistara stjarnanna 

Mörg húðflúra Smuttys eru eftir sanna listamenn. „Ég er með einhver eftir Bob Roberts sem er guðfaðir húðflúrsins í Bandaríkjunum,“ segir hann en sá flúrari sem Smutty fer til núna er Mark Mahoney í Hollywood. Sá er mjög vinsæll meðal stjarnanna og hefur til dæmis flúrað á Johnny Depp, Rihönnu og Beyoncé.

Smutty er mikið á ferðinni um heiminn. „Ég var að koma frá Las Vegas þar sem hljómsveitin mín Rockats spilaði á heiðurstónleikum á 30 þúsund manna tattú-, bíla- og rokkabillíráðstefnu,“ segir Smutty. 

Ný útvarpsstöð og ný bók

Lífið er óútreiknanlegt og fyrir sex árum leiddi ástin Smutty til Íslands. Hann hafði kynnst stúlku á rokkabillíklúbbi í London sem gat rúllað sígarettu með annarri og drukkið fullvaxta karlmenn undir borðið. Þar með voru örlögin ráðin. Smutty vann í nokkur ár sem útvarpsmaður á Xinu en hefur nú söðlað um og tekið til starfa á glænýrri útvarpsstöð, Radio Iceland, sem ætluð er sívaxandi fjölda ferðmanna á Íslandi. Dagskráin fer öll fram á ensku sem hentar Smutty auðvitað vel. „Ég fæ mikið frjálsræði og get spilað hvað sem ég vil. Ég ætla að leggja áherslu á íslensk bönd, jaðartónlist og ungar hljómsveitir. Ég vil kynna þessar hljómsveitir fyrir ferðamönnum enda er áhuginn á íslenskri tónlist mjög mikill í kjölfar vinsælda Of Monsters and Men og Kaleo,“ en Smutty hefur unnið talsvert með strákunum í Kaleo og komið þeim á framfæri í London.

Smutty vinnur einnig að bók um fyrstu árin sín í tónlistarbransanum, frá því hann var unglingur í Essex til tíma hans í stúdíói Andy Warhol, The Factory, í New York. Þeir sem vilja skoða söguna nánar geta farið á unbound.co.uk/books/smutty.

Afinn var fyrirmynd

Smutty segir afa sinn hafa haft mikil áhrif á sig. „Afi minn var alsettur tattúum og þar sem ég átti ekki pabba varð hann fyrirmynd mín í lífinu. Hann var í sjóhernum, drakk flösku af gini og reykti tvo pakka á dag. Ég skoðaði tattúin hans þegar hann var orðinn mjög gamall og þau höfðu enst ótrúlega vel en flest voru gerð í heimsstyrjöldinni síðari. Mín hafa líka enst nokkuð vel, rauði liturinn endist þó best.“ 

Muntu fá þér ný tattú þar til yfir lýkur? „Af hverju ekki? Þú ert aðeins jafn gamall og þér líður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×