Lífið

Mamma sem rokkar og skrifar barnabækur

Elín Albertsdóttir skrifar
MYND/HANNA
MYND/HANNA
Birgitta Haukdal, söngkona og barnabókahöfundur, situr við skriftir þessa dagana á milli þess sem hún sinnir börnum sínum tveimur. Tvær nýjar barnabækur koma út með haustinu þar sem Birgitta heldur áfram að fjalla um Láru og lífsreynslu hennar.

Það hefur ekki mikið borið á Birgittu undanfarið. Það er svo sem ekkert skrítið þar sem hún er í fullu starfi við að hugsa um átta mánaða dóttur sína, Sögu Júlíu, og soninn, Víking Brynjar, sem er sjö ára. Þar fyrir utan er fjölskyldan nýkomin frá Barcelona þar sem hún dvaldi í sumarfríi með viðkomu í Marseille þar sem fylgst var með leik Íslendinga og Ungverja.



„Það er ýmislegt sem ég er að sýsla við þessa dagana fyrir utan að vera mamma,“ segir Birgitta. „Ég er ein af þeim sem er alltaf að gera alls konar. Það er því varla hægt að segja að ég sé í fæðingar­orlofi. Ég hef setið við skriftir, verið í sambandi við teiknara og er að undirbúa bækur fyrir prentun,“ greinir hún frá en fyrir jólin í fyrra komu út tvær barnabækur eftir hana, Lára lærir að hjóla og Lára fer í flugvél. „Það var upphafið að barnabókaseríu sem ég er að vinna við. Þetta eru bækur fyrir börn frá 2-7 ára. Ég ætlaði að koma með framhaldið núna í sumar en vegna anna náði ég því ekki. Þetta eru skemmtisögur með fræðsluívafi. Lára er venjulegt barn sem lærir eitthvað nýtt í hverri bók. Mér finnst ofsalega mikilvægt að krakkarnir okkar eigi raunverulega fyrirmynd en ekki einungis Disney-persónur og ofurhetjur. Ég vildi hafa Láru raunverulega og börnunum finnst þetta ævintýri vegna þess að þetta er eitthvað sem þau gera sjálf,“ útskýrir Birgitta sem segir að hennar eigin börn hafi orðið kveikjan að bókunum.

Hvunndagshetja í bók

„Sonur minn hefur ótrúlega gaman af sögum. Ég var alltaf að lesa fyrir hann og fór síðan að búa til sögur. Hann hafði mest gaman af sögum þegar hann gat sett sig í fótspor söguhetjunnar, eitthvað sem gæti gerst hjá honum. Hann var minna hrifinn af skrímslinu undir rúminu. Mér fannst vanta nútímalegar bækur um það sem krakkar eru að gera í dag. Ég bjó í Barcelona í þrjú ár og byrjaði að skrifa þar. Úr því að syni mínum fannst þetta skemmtilegt þá myndu sögurnar kannski henta öðrum börnum líka,“ segir Birgitta. „Í nýju bókunum fer Lára í skíðaferðalag og í fjölskyldupartí þar sem fréttir af væntanlegu systkini lita kvöldið. Svo fylgir bangsinn Ljónsi Láru hvert fótmál. Mér finnst ótrúlega gaman að búa eitthvað til eftir eigin höfði. Ekki ólíkt og með músíkina,“ segir Birgitta en listrænir hæfileikar hennar hafa fyrir löngu sýnt sig.

Glæsileg fjölskylda, Birgitta ásamt eiginmanninum, Benedikt, og börnunum Víkingi Brynjari og Sögu Júlíu.
Syngur á sveitaballi

Þegar hún er spurð hvort hún hafi lagt tónlistina á hilluna, svarar Birgitta því neitandi. „Tónleikahald hentar ekki mjög vel fjölskyldulífi. Ég hef frekar kosið að nýta krafta mína með börnunum, enda mikil fjölskyldumanneskja. Samt er tónlistin enn í mínu lífi og ég get valið mér verkefni eftir því sem þau henta mér. Það eru mikil forréttindi fólgin í því. Ég ætla að syngja aðeins í sumar, meðal annars á sveitaballi á Mærudögum í minni heimabyggð seinna í júlí. Þar syng ég með hljómsveitinni 76 mafían,“ segir Birgitta, sem söng síðast á sveitaballi með norðlensku söngvurunum Magna Ásgeirssyni og Stefáni Jakobssyni fyrr í sumar. „Það var mjög skemmtilegt. Mér finnst rosalega gaman að stökkva stundum á sviðið en sakna þess þó ekki þar á milli. Ég var í tíu ár á fullu í músík en þá var ég barnlaus og það hentaði því vel að flækjast um landið. Svo breytist lífið og eitthvað annað kemst í forgang hjá manni.“

Ráðleggur foreldrum

Birgitta nýtur sín mjög vel í mömmuhlutverkinu. Henni finnst það gefa sér mikla ánægju að vera með börnunum. „Enda þurfti ég að hafa mikið fyrir þeim og kann því svo sannarlega að meta þau. Það tók mörg ár fyrir mig að verða barnshafandi. Ég vil því gefa börnunum allan þann tíma sem þau þurfa,“ segir hún. „Þau eldast svo fljótt.“

Birgitta opnaði nýlega síðu á Facebook sem nefnist MAMMA ROKKAR og þar deilir hún reynslusögum með lesendum síðunnar. „Mig langaði til að búa til síðu fyrir mömmur þar sem hægt er að skiptast á reynslusögum. Stundum set ég inn spurningu og einhver mamma eða pabbi svarar henni. Það má líka setja inn spurningu og ég reyni að leita svara við henni. Ég er rosa glöð með þessa síðu og hef fengið góð viðbrögð við henni.“

Birgitta hefur reynslu af leiklist, hefur meðal annars verið í Ávaxtakörfunni og Grease auk þess sem hún hefur léð teiknimyndahetjum rödd sína í sjónvarpi. Það er aldrei að vita nema hún taki upp gítarinn og syngi þegar nýju bækurnar verða kynntar í haust. Það er ekki amalegt að geta blandað saman upplestri og söng.

Ástin og Barcelona

Birgitta lærði spænsku þegar hún bjó í Barcelona ásamt manni sínum, Benedikt Einarssyni. „Mér fannst nauðsynlegt að læra málið til að komast betur inn í samfélagið. Maður drekkur meira í sig menninguna þegar hægt er að tjá sig á máli innfæddra. Þar fyrir utan er æðislegt að fara í tungumálanám á fullorðinsaldri og maður verður svo montinn yfir að ná árangri. Það er alltaf hægt að bæta við sig þekkingu,“ segir hún.

„Við eignuðumst marga góða vini í borginni sem við heimsækjum reglulega. Barcelona er dásamleg borg. Ef ég mætti ráða vildi ég setjast þar að en koma heim til að halda íslensk jól. Borgin er lítil og þægileg þótt þar búi margar milljónir. Hún er vissulega erilsöm en mikill munur er á Römblunni og þremur götum þar í kring í miðbænum og síðan öðrum svæðum borgarinnar. Ferðamenn eru í miðborginni þar sem lundabúðir Spánverjanna eru. Í hverfunum er allt önnur stemming og ótrúlega margt sem borgin hefur upp á bjóða. Þetta er yndisleg menningarborg. Í október getur maður skotist í pikknikk á ströndina í 18 stiga hita og hitt vini sína. Daginn eftir getur maður pakkað fjölskyldunni í bíl og farið í skíðaferðalag upp í fjöllin. Ég er ástfangin af borginni og fólkinu þar.“

Birgitta stendur með íslenska landsliðinu á EM eins og aðrir landsmenn. Þessi mynd var tekin þegar leikur Íslands og Englands stóð yfir.
Gourmet-kokkur

Það má segja að Birgitta hafi fjölmörg áhugamál. Matargerð er þar á meðal. „Mér finnst mjög gaman að elda góðan mat, er mikil gour­met-kona. Hráefnið á Spáni er alveg einstaklega ferskt og það er ótrúlega skemmtilegt að elda fisk þar. Þótt við séum fiskveiðiþjóð eru fiskbúðirnar okkar tómar miðað við í Barcelona. Þar er alls kyns skelfiskur, sniglar og framandi fisktegundir. Auk þess eru frábærir matarmarkaðir um alla borg sem gaman er að heimsækja. Margir bestu spænsku veitingastaðirnir eru úti í hverfunum, æðis­legir tapas-staðir sem vert er að prófa.“

Fyrir utan matargerðina þá eru Birgitta og Benedikt mikið veiðifólk og ætla að nýta nokkrar helgar í sumar til laxveiði. „Pabbi varð sextugur í sumar og það verður haldið upp á afmælið með fjölskyldunni á Krít í september,“ segir Birgitta sem segir að lítið mál sé að ferðast með ung börn. „Ferðalög með börn snúast um að vera vel undirbúinn. Ég legg til að foreldrar taki með sér hollt snarl og leikföng í flugið sem léttir flugferðina. Það er til dæmis oft hlegið að mér þegar ég er að poppa og setja rúsínur í poka heima um miðja nótt fyrir langa flugferð morguninn eftir. Aðal­málið er að líta aldrei af börnunum í útlöndum. Góð hugmynd er að setja merkimiða um úlnliðinn á barninu, sérstaklega ef börn eru gjörn á að hlaupa í burtu. Ég hef reyndar verið heppin með son minn, hann víkur ekki frá okkur.“

Þegar Birgitta er spurð hvort hún ætli að halda áfram með rithöfundinn og skrifa skáldsögu, svarar hún. „Ég tek nú bara eitt skref í einu. Hins vegar er ég óhrædd við að taka mér eitthvað nýtt fyrir hendur svo það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni,“ segir söngkonan sem býður spennt eftir leik Íslands og Frakklands á sunnudag. „Ef fólk fer með börn á leikinn í París eða á Arnarhól ætti það að muna eftir heyrnartólum til að verja heyrn barnsins,“ segir mamman sem rokkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×