Enski boltinn

Mamma Charlie Austin fór að gráta við fréttirnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charlie Austin.
Charlie Austin. Vísir/Getty
Charlie Austin, framherji Queens Park Rangers, hefur spilað sig inn í enska landsliðshópinn með því að skora sautján mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Roy Hodgson valdi í gær Austin í enska landsliðshópinn fyrir leiki á móti Írlandi og Slóveníu og vakti þetta val mikla athygli enda leikmaðurinn að spila fyrir neðsta liðið í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Charlie Austin er valinn í landsliðið en hann er 25 ára gamall og var í vetur að spila í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn. 17 mörk í 34 leikjum er ekki slæmt fyrir nýliða eða fyrir mann sem spilaði í utandeildinni þegar hann var tvítugur.

„Mamma fór að gráta þegar ég sagði henni frá þessu," sagði Charlie Austin í viðtali á heimasíðu Queens Park Rangers.

„Hún var svo yfir sig ánægð. Ef ég segi alveg eins og er þá á ég erfitt með að finna réttu orðin til að lýsa því hvernig mér líður. Ég hef ekki alveg áttað mig á þessu ennþá," sagði Austin.

Charlie Austin hefur skorað þar sem hann hefur spilað en enginn hefur skorað meira í efstu deildunum fjórum frá 2011. Austin hefur skorað 77 mörk á þessum fjórum tímabilum en hann lék áður með Burnley í ensku b-deildinni og fór síðan upp með QPR í fyrra.

Charlie Austin spilar væntanlega ekki áfram með Queens Park Rangers sem féll úr ensku úrvalsdeildinni en bæði Newcastle og Southampton hafa áhuga á honum.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×