Innlent

Malín fékk lánaðan Yaris hjá umboðinu sem systurnar óku á til að sækja fjárkúgunarféð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Lögreglan handtók Malín og systur hennar Hlín þegar þær komu í Hafnarfjörð til að sækja fjármunina og skilaði svo bílnum í umboðið.
Lögreglan handtók Malín og systur hennar Hlín þegar þær komu í Hafnarfjörð til að sækja fjármunina og skilaði svo bílnum í umboðið. Vísir
Malín Brand fékk lánaðan bíl hjá Toyota á Íslandi daginn sem hún ók systur sinni Hlín Einarsdóttur út í hraun við Vallarhverfið í Hafnarfirði þar sem til stóð að sækja peninga sem þær eru grunaðar um að hafa reynt að kúga út úr forsætisráðherra. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi Toyota.

„Þetta er ekkert leyndarmál, hún var á Yaris frá okkur, það er bara svoleiðis,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota. „Hún hefur oft komið til okkar, hún náttúrulega starfaði sem bílablaðamaður á Morgunblaðinu og hefur prófað bíla oft og hefur mjög oft komið til okkar og fengið bíla til að reynsluaka.“

Lögreglan skilaði bílnum

Lögreglan handtók Malín og systur hennar Hlín þegar þær komu í Hafnarfjörð til að sækja fjármunina. Malín hefur frá því að greint var frá málinu haldið því fram að hennar aðkoma hafi aðeins falist í að aka systur sinni á staðinn og að hún hafi ekki trúað því að nokkur maður myndi taka mark á hótuninni. 

Páll segir að lögreglan hafi skilað bílnum í kjölfar handtökunnar. „Og [lögreglan] ræddi við framkvæmdastjóra Toyota í Kauptúni, sem sagt söluaðilanum, og við veittum allar upplýsingar sem beðið var um,“ segir hann.

Ekki fyrir vinnuna

Páll segir aðspurður að hún hafi ekki fengið bílinn lánaðan til að reynsluaka fyrir vinnu. 

„Hún sagði að hún væri að prófa þennan bíl fyrir frænku sína sem væri að velta fyrir sér að kaupa Yaris,“ segir hann. „Það var langt síðan hún hafði keyrt hann og bað um að fá að taka aðeins hring á bílnum til þess að rifja upp hvernig bíllinn væri og hvort hann passaði fyrir frænku sína.“

Engin lífsýni á bréfinu

Rannsókn málsins lauk fyrr í vikunni og er það á leið til ríkissaksóknara, sem mun taka ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu eða ekki. Málið hefur verið til rannsóknar allt frá mánaðamótum maí og júní en meðal annars voru gögn send til lífsýnarannsóknar í útlöndum.

Samkvæmt heimildum Vísis fundust engin lífsýni eða fingraför á hótunarbréfinu sem sent var á heimili Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. 

Ekki náðist í Malín við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×