Enski boltinn

Málglaður framkvæmdastjóri Dortmund heldur áfram að skjóta á Man. City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hans-Joachim Watzke segir það sem honum finnst.
Hans-Joachim Watzke segir það sem honum finnst. vísir/getty
Hans-Joachim Watzke, hinn málglaði framkvæmdastjóri Borussia Dortmund, er ekki hættur að skjóta á Manchester-liðin United og City. Nú segir hann sitt félag hafa meira aðdráttarafl en City-liðið.

Dortmund hefur boðið upp á nettar pillur ætlaðar Manchester-liðunum á síðustu vikum og mánuðum eftir sölur á leikmönnum þangað.

Þegar Manchester City keypti Ilkay Gündogan frá Dortmund sagði í yfirlýsingu frá þýska liðinu: „Miðjumaðurinn yfirgefur áttfalda Þýskalandsmeistara og gengur í raðir Manchester City, sem hafnaði í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.“

Dortmund skaut líka á Manchester United í yfirlýsingu sinni um sölu á Armenanum Henrikh Mkhitaryan en þar stóð: „Mkhitaryan vildi ganga í raðir liðsins sem endaði í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.“

Að þessu sinni var Watzke ekkert að fela sig á bakvið neinar yfirlýsingar heldur skaut hann beint á City þegar hann ræddi við fréttamenn um undirbúning Dortmund-liðsins fyrir nýtt tímabil.

„Það er svo einfalt að það eru bara fimm lið í heiminum sem hafa meira aðdráttarafl og eru fjársterkari en við. En þegar kemur að aðdráttarafli höfum við klárlega meira en Manchester City. Það er alveg augljóst,“ sagði Hans-Joachim Watzke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×