Innlent

Málaþurrð ríkisstjórnar vekur undrun

Snærós Sindradóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram sex lagafrumvörp, nærri helming allra frumvarpa ráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram sex lagafrumvörp, nærri helming allra frumvarpa ráðherra. vísir/ernir
Fá mál koma frá ríkisstjórninni til meðferðar þingsins og telja formenn þingflokka minnihlutans meirihlutann ekki ganga í takt. Messufall hefur verið í þingnefndum þar sem engin mál eru á dagskrá sumra nefnda.

Eftir 1. apríl er ekki hægt að leggja fram mál til þingsins nema leitað sé afbrigða. Því er skammur tími til stefnu. Fjöldi mála í þingmálaskrá ráðherra sem samþykkt var af ríkisstjórn í janúar á eftir að koma til þings. Átta þingfundardagar eru eftir af marsmánuði.

Ráðherrar í ríkisstjórn hafa lagt fram þrettán lagafrumvörp frá því ríkisstjórnin var mynduð. Auk þess hafa sex þingsályktunartillögur komist til þingsins. Þrjú mál ríkisstjórnarinnar bíða svo fyrstu umræðu í þinginu.

Frumvörp þingmanna eru hins vegar orðin 38 á þessu þingi. Þar af eru frumvörp stjórnarandstöðunnar 28 talsins.

„Þessi vinnubrögð eru ekki í takt við hin nýju vinnubrögð sem Björt framtíð og Viðreisn töluðu svo mikið um,“ segir Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata.

Þórunn Egilsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, er sammála Ástu Guðrúnu um rólega tíð í þinginu. „Maður hefur það á tilfinningunni að þessi ríkisstjórn verði ekki ríkisstjórn mikilla afreka. Það virðist vera langt á milli þeirra í stórum málum og veikleikar stjórnarinnar hafa komið fram nú þegar,“ segir Þórunn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×