Erlent

Malaríuprótein vekur upp vonir í baráttunni gegn krabbameini

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vonast er til að hægt verði að hefja prófanir á fólki innan fjögurra ára.
Vonast er til að hægt verði að hefja prófanir á fólki innan fjögurra ára. vísir/getty
Vísindamenn við Háskólann í Kaupmannahöfn gætu alveg óvart hafa rambað á nýtt vopn í baráttunni gegn krabbameini. Lausnin er fólgin í því að hengja malaríu prótein við krabbameinsfrumur sem síðar er hægt að ráða niðurlögum. Fjallað er um málið hjá The Independent.

Dönsku vísindamennirnir voru að leita leiða til að vernda óléttar konur fyrir malaríu en sjúkdómurinn getur skaðað legköku óléttra kvenna mjög. Legkökum svipar mjög til æxla að því leiti að bæði vaxa afar hratt á skömmum tíma og hafa vísindamenn lengi reynt að leita leiða hvernig það getur hjálpað í baráttunni gegn krabbameini.

Ferlið hefur nú þegar verið prófað á músum með krabbamein og gaf það góða raun í níu af hverjum tíu tilfellum. Niðurstöður rannsóknanna voru birtar í tímaritinu Cancer Cell fyrir tveimur dögum. Gangi áætlanir vísindamannanna eftir gætu prófanir á mönnum hafist á næstu fjórum árum.

„Við erum bjartsýn þar sem próteinið sem við notum hefur aðeins áhrif á ákveðið kolvetni sem finnst aðeins í krabbameinsfrumum og legkökum,“ segir Ali Salanti, einn þeirra sem fer fyrir rannsókninni. „Stóra spurningin er samt hvort mannslíkaminn þoli meðferðina án mikilla aukaverkanna eða hvort hún virki yfirhöfuð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×