Innlent

Mál tengd ofbeldi á heimilum þrefaldast

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Tilfellum þar sem lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að láta til sín taka vegna heimilisofbeldis hefur fjölgað verulega. Hún tekur á málinu af fullum þunga og leitar ýmissa leiða.
Tilfellum þar sem lögreglan á Suðurnesjum hefur þurft að láta til sín taka vegna heimilisofbeldis hefur fjölgað verulega. Hún tekur á málinu af fullum þunga og leitar ýmissa leiða. Vísir/Getty
Heimilisofbeldismálum sem koma til kasta lögreglunnar á Suðurnesjum hefur fjölgað úr átján í fimmtíu og sex síðastliðin þrjú ár. Fjöldinn hefur því þrefaldast á þessum tíma. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir að þar hafi menn mætt þróuninni með fullum þunga.

Lögreglan þar hóf til dæmis tilraunaverkefni í byrjun árs 2012 sem kallað var „Að halda glugganum opnum“. Markmiðið var að gera verklagsreglur, alla afgreiðslu, eftirfylgni og forvarnir skilvirkari. „Þetta eru nú bara orðnar verklagsreglur hjá okkur í dag svo að þegar lögreglan er kölluð til þá opnast allir gluggar kerfisins þannig að félagsþjónusta, barnavernd og fleiri koma beint að málinu og svo höfum við eftirfylgni og vitjum fórnarlamba til að fyrirbyggja frekari vanda.“ Hann segir því að hluta af aukningunni megi skrifa á reikning skilvirkari verklagsreglna og eins vitundarvakningar í samfélaginu.

Fyrir nokkrum dögum var tekinn í notkun neyðarhnappur sem ætlaður er fólki sem býr við viðkvæmar aðstæður, eins og Skúli orðar það. Það getur verið í tilfellum þar sem þolandi heimilisofbeldis býr við þá hættu að brotamaðurinn brjóti nálgunarbann og ógni öryggi þolanda. Verkefnið er gert í samvinnu við fyrirtæki í öryggisþjónustu sem leigir hnappinn. Aðeins einn notandi er með hnappinn enn sem komið er. Þolandinn er vaktaður hvar sem hann er á landinu og bregst lögregla viðkomandi umdæmis við ef notandinn neyðist til að hringja meðan hann er utan Suðurnesja. Lögregla í öllum umdæmum hefur einnig gögn um mál þolanda. Nýlundan er tilkomin að frumkvæði lögreglunnar á Suðurnesjum.

„Við vorum á ráðstefnu í fyrravetur á Spáni og þar kom það fram að sums staðar er brugðist við þessu svona svo við ákváðum að prófa.“

Aðspurður hvort hann telji líklegt að þessir hnappar verði notaðir í fleiri tilfellum segir hann: „Ég get lítið sagt um það, það veltur á þolendum. En þetta er til staðar og viðleitni okkar líka.“ Hann segir enn fremur að hnappurinn geti haft fyrirbyggjandi áhrif því brotamaður sé ólíklegri til að leggja til atlögu viti hann af þessum öryggisventli þolandans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×