Skoðun

Maísmengaðir plastpokar

Sigurður Oddsson skrifar
Ég bar saman venjulega plastpoka og pappírspoka í grein sem birtist nýlega í Fréttablaðinu og skrifaði „Plastpokar eru umhverfisvænstu umbúðirnar“, en hefði átt að bæta við: sé maís ekki blandað í plastið.

Undanfarið hafa svokallaðir maís-plastburðarpokar verið í umræðunni. Þeir eru sagðir umhverfisvænir, sem ekki er rétt. Upphaf blöndunar maís í plast hófst í Bandaríkjunum fyrir um 40 árum, þegar pappírspokum var skipt út fyrir plastpoka í kjörbúðum. Þeir töldu plast með maís umhverfisvænna en sáu fljótt að að svo var ekki.

Seinna fóru Þjóðverjar sömu leið. Tvær stærstu verslunarkeðjurnar ALDI og REWE supu seyðið af því, áður en þær af umhyggju fyrir umhverfinu fyrirskipuðu að taka alla maísblandaða poka úr verslunum sínum. Síðan er markaður fyrir maíspoka í Þýskalandi dauður og hélt ég, að maísblöndun í plast væri út af borðinu.

Umhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru nógu sterkir til að vera notaðir aftur og aftur. Þar eru plastburðarpokar með yfirburða stöðu.

Eftirfarandi staðreyndir sýna að maísblandað plast er ekki umhverfisvænt samanborið við poka úr plasti án maís:

Maís er framleiddur á grænmetisökrum, sem betur væru nýttir til ræktunar matvöru. Plast án maís er framleitt úr hliðarafurð olíuvinnslu, sem annars yrði eytt.

Það er ekki hægt að endurvinna maísblandað plast eða framleiða það úr endurunnu plasti. Einfalt og ódýrt er að endurvinna plast ómengað af maís.

Maísblandað plast brotnar hratt niður í CO2, sem er gróðurhúsalofttegund. Plast án maís brotnar hægt niður í frumefni sín án mengunar.

Við urðun maísblandaðs plasts myndast metan, sem er sterk gróðurhúsalofttegund. Plast án maís brotnar niður án mengunar.

Framleiðsla maísblandaðs plasts er 400% dýrari en framleiðsla plasts.

Til að ná sama styrk og plast án maís verður maísblandað plast að vera minnst tvisvar sinnum þykkara en plast án maís.

Maís, sem blandað er við plast getur innihaldið erfðabreytt efni (GM), sem ekki eru í ómenguðu plasti.

Til framleiðslu á maís þarf ræktarland, áburð, skordýraeitur og vatn. Ekkert af þessu þarf til framleiðslu plasts án maísíblöndunar.

Dráttarvélar og trukkar framleiða stöðugt CO2 allt frá því land er plægt, fræjum sáð, áburði og eiturefnum dreift og uppskera keyrð af akri. Maísblandaða plastið er svo helmingi þyngra og þar af leiðandi fer meiri orka í flutninga.

Það fer ekki hjá því að maður velti fyrir sér, hversu miklu eldsneyti var brennt? Augljóst má vera að þessi framleiðsla maísplastpoka er ekki umhverfisvæn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×