Körfubolti

Magic Johnson vill hjálp frá Kobe fái hann að taka til hjá Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magic Johnson og Kobe Bryant.
Magic Johnson og Kobe Bryant. Vísir/AFP
Magic Johnson er kominn aftur til Los Angeles Lakers en Jeanie Buss, forseti Lakers og meðeigandi, réði hann sem sérstakan ráðgjafa sinn fyrr í þessum mánuði.

Magic Johnson kom í viðtal til Stephen A. Smith í First Take á ESPN og þar fór hann ekkert í felur með það að hann sækist eftir þjónustu Kobe Bryant við að búa til framtíðarlið hjá Los Angeles Lakers. ESPN segir frá.

„Fyrsta símtalið mitt? Kobe Bryant,“ svaraði Magic Johnson og bætti við: „Ég myndi hringja í Kobe því hann skilur hvað þarf til að vinna. Hann skilur líka þessa leikmenn. Ég myndi hringja í hann og spyrja: Hvaða hlutverk viltu fá? Ef þú getur bara gefið mér einn dag þá þigg ég hann,“ sagði Magic.

„Ég tek við hverju sem hann getur gefið mér. Ég vil hann komi og taki þátt í þessu,“ sagði Magic.

Magic Johnson varð fimm sinnum NBA-meistari með Los Angeles Lakers (1980, 1982, 1985, 1987, 1988) á sínum tíma og Kobe Bryant lék það eftir og vann fimm meistaratitla líka með Lakers (2000, 2001, 2002, 2009, 2010).

Saman hafa þeir því tekið þátt í síðustu tíu meistaratitlum félagsins eða öllum titlum Lakers frá árinu 1973.

Magic Johnson hefur sóst eftir meiri ábyrgð hjá Los Angeles Lakers. Hann vill taka stóru ákvarðanirnar en vill jafnframt að menn í ráðandi stöðum vinni saman.

„Allir þurfa að vera á sömu blaðsíðu núna. Við þurfum ekki bara að hugsa um hvað er rétt í dag heldur hvað það þýðir fyrir framtíð Lakers. Það þurfa allir að gera sér grein fyrir,“ sagði Magic Johnson.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×