Körfubolti

Mættur til að gera það sem þjálfarinn segir mér að gera

Óskar Ófeigur Jónsson í London skrifar
Jón Arnór Stefánsson ræðir við Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands, á hóteli liðsins í London eftir að hann mætti í gær.
Jón Arnór Stefánsson ræðir við Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands, á hóteli liðsins í London eftir að hann mætti í gær. vísir/óój
Íslenska körfuboltalandsliðið leikur einn sinn allra mikilvægasta leik frá upphafi í London í kvöld þar sem sigur getur skilað liðinu sæti á EM í fyrsta sinn.

Liðið eru búið að endurheimta sinn besta leikmann því Jón Arnór Stefánsson var mættur út og æfði með liðinu í Koparkassanum í gær.

Jón Arnór hefur ekki spilað tvo fyrstu leikina í undankeppninni en hann tók mikinn þátt í sigrinum á Bretum í fyrri leiknum í Laugardalshöllinni þrátt fyrir að hafa ekki spilað eina einustu sekúndu. Jón var með liðinu í klefanum og hvatti strákana áfram á hliðarlínunni.

„Mér leið nú alveg helmingi verr á bekknum en að vera að spila. Ég var ofsalega stressaður og það var allt öðru vísi að sjá þetta frá þessu sjónarhorni og geta ekki tekið þátt í þessu,“ sagði Jón Arnór sem er vel með á nótunum hvað varðar leikskipulag liðsins þrátt fyrir að hafa ekki spilað undir stjórn Craig Pedersen.

Jón Arnór horfði á fyrri leikinn gegn Bretum af bekknum.vísir/vilhelm
„Ég er alveg inni í þessu. Ég náði tveimur til þremur æfingum með þeim áður en þeir fóru út til Bosníu og svo hef ég bara verið að æfa á fullu sjálfur. Ég er kominn í gott stand og líður vel. Ég er spenntur fyrir því að fara að spila. Ég varð bara að taka þátt í þessu,“ sagði Jón Arnór.

„Við megum ekki gleyma því að við erum ennþá minni þjóð og við höfum engu að tapa og allt að vinna,“ segir Jón Arnór sem finnst ekki vera mikil pressa á liðinu þrátt fyrir að mikið sé í húfi.

„Það er gott jafnvægi í liðinu og góður andi. Ég held að við séum allir jarðtengdir,“ segir Jón Arnór og hann leggur áherslu á að strákarnir megi ekki stíga af bensíngjöfinni.

„Það má ekki gerast og ég er ekki að koma inn í þetta á þeim forsendum að fara skora 40 stig eða spila 30 til 40 mínútur. Ég er að koma hingað til að gera það sem þjálfarinn ætlast til af mér,“ sagði Jón Arnór sem ræddi heillengi við Craig Pedersen þjálfara fyrir æfinguna í gærkvöldi.

„Það sem strákarnir eru að gera núna er frábært og þeir eru að spila vel. Þarna eru strákar sem eru að fá miklu stærra hlutverk og meiri rullu. Ég ætla að reyna að passa inn í það,“ sagði Jón Arnór.

Leikurinn hefst klukkan 18.35 að íslenskum tíma og með sigri tryggir íslenska liðið sér annað sætið en 6 af 7 liðum í öðru sæti í riðlunum fara á EM.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×