Innlent

Maðurinn var alblóðugur og í afar annarlegu ástandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Óður maður, vopnaður sleggju og hamri, gekk berserksgang á Miklubraut í gærkvöldi. Tvisvar var ekið á manninn. Vitni segjast aldrei hafa séð annað eins.

Atburðarrásin hófst á sjötta tímanum í gær, tuttugu mínútur yfir sex. Ökumenn á Miklubraut komu þá auga á mann í hvítum hlírabol sem stóð á miðri götunni í grennd við Skaftahlíð. Vitni sem fréttastofa ræddi við segir að maðurinn hafi hlaupið á móti umferð, vopnaður hamri og sleggju.

Ekið var á manninn. Við það kastaðist hann á framrúðu bílsins. Vitni segja að maðurinn hafi þá staðið upp og öskrað af lífsins sálarkröftum og hlaupið aftur á móti umferð. Þá var aftur ekið á hann. Þeir sem urðu vitni að þessu, og fréttastofa hefur rætt við, eru sammála um að maðurinn hafi verið í afar annarlegu ástandi.

Maðurinn lamdi í hlið bifreiða sem höfðu staðnæmst. Einn ökumaður ók upp á kant þar sem hann mætti manninum. Bílstjórinn læsti þá hurðum, gaf í og slapp heilu og höldnu.

Í samtali við fréttastofu sagði bílstjórinn að maðurinn hafi verið alblóðugur eftir að hafa verið ekinn niður. Maðurinn hafi verið í sturlunarástandi. Fregnir hafa borist af því að hann hafi freistað þess að komast inn í bíla á Miklubraut en það hefur ekki fengist staðfest hjá lögreglu. Vitni segja að maðurinn hafi hlaupið inn á bílastæði, kastað frá sér sleggjunni og reynt að brjótast inn í bíla.

Lögreglumenn voru komnir á vettvang á Miklubraut örfáum mínútum eftir að atburðarrásin hófst.

Í skýrslu lögreglu segir einungis að maður í mjög annarlegu ástandi hafi verið handtekinn á Miklubraut klukkan hálf sjö. Hann sé grunaður um eignaspjöll. Áverkar mannsins virðast hafa verið minniháttar enda var hann færður fangageymslu og verður hann þar meðan ástand hans lagast.

Vitnin sem fréttastofa ræddi við í morgun segjast aldrei hafa séð annað eins, eða orðrétt: „Þetta var hræðilegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×