Lífið

Maðurinn sem varð Brandon Lee að bana fyrir slysni látinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Michael Massee.
Michael Massee. Vísir/Getty
Leikarinn Michael Massee er látinn 61 árs að aldri. Massee þessi var frá Bandaríkjunum en hann var því miður ekki þekktastur fyrir leikferil sinn, heldur fyrir að hafa verið maðurinn sem varð leikaranum Brandon Lee að bana fyrir slysni við tökur á kvikmyndinni The Crow. Dánarorsökin liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Brandon Lee var sonur Bruce Lee.Vísir/Getty
Massee fór með hlutverk Funboy í þeirri mynd en leikmunadeild myndarinnar hafði fært honum byssu með púðurskotum sem hann átti að skjóta á Brandon Lee. Handvömm varð þess valdandi að púðurskotin reyndust skaðleg og hæfðu Brandon Lee. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést í aðgerð 31. mars árið 1993, 28 ára gamall.

Massee, sem horfði að eigin sögn aldrei á The Crow, dró sig í hlé frá leiklistinni eftir þetta atvik. „Ég held að maður jafni sig aldrei á svona atviki,“ sagði hann í viðtali árið 2005.

Leikarinn á að baki áttatíu sjónvarps- og kvikmyndaverkefni, þar á meðal í myndum leikstjórans David Fincher, Seven og The Game, og í Lost Highway eftir David Lynch.

Hann lék einnig í Catwoman, The Amazing Spider-Man og The Amazing Spider-Man 2.

Í sjónvarpi fór hann til að mynda með hlutverk illmennisins Ira Gaines í fyrstu seríunni af 24 og óþokkans Charles Hoyt í Rizzoli & Izsles. Þá lék hann einnig gestahlutverk í The X-Files, Alias, Supernatural, House og The Blacklist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×