Enski boltinn

Maðurinn sem tók skrítna tilhlaupið á EM færist nær West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Leit enska úrvalsdeildarliðsins að nýjum framherja virðist vera lokið.

Samkvæmt frétt The Guardian hefur West Ham komist að samkomulagi við Juventus um kaup á ítalska framherjanum Simone Zaza.

Talið er að Zaza muni kosta West Ham um 28 milljónir punda sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins.

Zaza, sem er 25 ára, skoraði fimm mörk í 19 deildarleikjum með Juventus á síðasta tímabili. Hann hefur einnig leikið með Atalanta, Sampdoria, Juve Stabia, Viareggio, Ascoli og Sassuolo á Ítalíu.

Þá hefur Zaza leikið 14 landsleiki fyrir Ítalíu og skorað eitt mark. Hann var í ítalska liðinu sem féll úr leik fyrir Þjóðverjum eftir vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum á EM í Frakklandi fyrr í sumar. Zaza klúðraði sinni spyrnu í vítakeppninni en tilhlaup hans er frægt af endemum.

Sjá einnig: Nowitzki hermdi eftir furðuvíti Zaza | Myndband

West Ham féll úr leik fyrir rúmenska liðinu Astra Giurgiu í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í gær. Næsti leikur liðsins er gegn Manchester City á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×