Skoðun

Maðurinn sem óhreinkar ekki skyrtuna sína

Agnes Linnet og Hilmar Jónsson skrifar
Það er kaldur þriðjudagsmorgunn í höfuðvígi rafmagns- og tölvuverkfræðinema í Háskóla Íslands. Klukkan er sautján mínútur yfir átta og tíu litlir verkfræðinemar hjúfra sig hver að öðrum í hlýjum, grátóna hettupeysum.

Nemendurnir hafa reyndar ekki setið lengi við borðin þegar karlmaður í stífpressuðum jakkafötum gengur rólega inn í stofuna. Maðurinn lítur kankvís yfir hópinn og brosir vinalega. Hann býður góðan daginn, sest við tölvuna, opnar glærusýninguna og dregur tjaldið fyrir töfluna.

Að því loknu sest hann aftur á bláa, slitna stólinn við tölvuna og bíður þolinmóður. En um leið og klukkan er orðin tuttugu mínútur yfir átta rís hann aftur á fætur og spyr hópinn hvort ekki sé rétt að hefjast handa við greiningu rása. Hann fer úr jakkanum og í ljós kemur hvít, óaðfinnanlega straujuð skyrta.

Átta útfylltum töflum síðar er kennslustundinni lokið og skyrtan er enn jafn hvít. Nokkrum vikum síðar er komið að lokum annarinnar og enn vottar ekki fyrir bláum, rauðum eða svörtum rákum eftir töflutússinn á ermum hans, jafnvel þó hann hafi skrifað jöfnur og tölur af mikilli elju klukkustundum saman. Hér er annað hvort um að ræða mann sem hefur gríðarlega nákvæma og þjálfaða úlnliðshreyfingu eða mann sem gerir einfaldlega ekki mistök.

Þetta er Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, maðurinn sem vonandi verður kjörinn rektor skólans næsta mánudag.

Missir fyrir deildina, fjársjóður fyrir háskólann

Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, myndi það tvímælalaust henta okkur, nemum í grunnnámi í rafmagns- og tölvuverkfræði, best að fá svona öflugan fræðimann og framúrskarandi kennara aftur í fulla kennslu við deildina.

Við vitum af reynslu að hann sinnir nemendum í grunnnámi vel og ekki síður þeim sem komnir eru lengra eftir menntaveginum. Hann veit svörin við spurningunum, eða að minnsta kosti hvar þau er að finna.

Öll vitum við að það er fylgni á milli þess að vilja tala við aðra með bros á vör og vera í kosningabaráttu. Jón Atli gefur sér aftur á móti alltaf tíma til að hlusta. Hann er maður sem getur gert greinarmun á því sem við viljum og því sem við þurfum, hann á ekki í vandræðum með að greina þar á milli. Því viljum við gjarnan deila Jóni Atla með öllum nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands í starfi rektors.

Jón Atli Benediktsson er maðurinn sem við treystum best til að sinna embætti rektors Háskóla Íslands og því mun hann, líkt og s.l. mánudag, fá atkvæði okkar þegar gengið verður til kosninga á ný mánudaginn 20. apríl 2015. Við hvetjum aðra nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands til að gera hið sama.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×