Körfubolti

Maðurinn sem Clippers-liðið getur ekki verið án frá í 6 til 8 vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul, leikstjórnandi Los Anegeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta, fer í aðgerð á þumalputta í dag og verður frá keppni næstu vikurnar.

Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir Los Angeles Clippers sem þarf nú að vera án síns mikilvægasta leikmanns í sex til átta vikur.  ESPN segir meðal annars frá.

Chris Paul meiddist við það að reyna að elta Russell Westbrook í leik á móti Oklahoma City Thunder. Hann teygði á liðbandi í vinstri þumalputta við það reyna að komast framhjá hindrun Joffrey Lauvergne hjá Thunder.

Clippers liðið treystir mikið á Chris Paul. Liðið er að skora tuttugu fleiri stig á hverjar hundrað sóknir þegar Paul er inná vellinum.

Með Chris Paul er Los Angeles Clippers búið að vinna 79 af 114 leikjum sínum undanfarin tvö tímabil (69 prósent sigurhlutfall) en aðeins 5 af 17 leikjum án hans (29 prósent sigurhlutfall).

Chris Paul er með 17,7 stig, 9,8 stoðsendingar og 5,3 fráköst að meðaltali í leik á þessu tímabili og þá hefur enginn leikmaður í deildinni stolið fleiri boltum (2,25 að meðaltali í leik). Paul er með sjötta besta framlagið í NBA-deildinni í vetur (27,5 í leik).

Clippers liðið er líka án stórstjörnunnar Blake Griffin sem hefur misst af síðustu þrettán leikjum liðsins eftir aðgerð á hné.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×