Enski boltinn

Maðurinn sem bjargaði Leicester City loksins búinn að fá nýtt starf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel Pearson og Jamie Vardy.
Nigel Pearson og Jamie Vardy. Vísir/AFP
Claudio Ranieri er vissulega knattspyrnustjórinn sem gerði Leicester City að Englandsmeisturum í fyrsta sinn á nýloknu tímabili en Ítalinn hefði aldrei verið í aðstöðu til þess ef ekki hefði verið fyrir starf forvera hans, Nigel Pearson.

Nigel Pearson hefur verið atvinnulaus síðan að hann var rekinn frá Leicester City 30. júní 2015 en í dag fékk hann loksins nýtt starf. Það verður síðan spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Guardian segir frá því að Pearson hafi skrifað undir þriggja ára samning við B-deildarlið Derby County í dag. Derby County endaði í 5. sæti í ensku b-deildinni í vetur og datt síðan út fyrir Hull City í undanúrslitum umspilsins þar sem 2-0 sigur í seinni leiknum dugði ekki.

Það eru tvær ástæður til að halda því fram að Englandsmeistarar Leicester City væru ekki í ensku úrvalsdeildinni ef Nigel Pearson hefði ekki notið við. Hann kom liðinu í fyrsta lagi upp í ensku úrvalsdeildina með því að vinna b-deildina tímabilið 2013–14 og hélt síðan Leicester uppi á magnaðan hátt þegar liðið var nýliði í ensku úrvalsdeildinni 2014-15.

Nigel Pearson yfirgaf Leicester City aftur á móti óvænt síðasta sumar eftir ósætti við eigendur félagsins. Hann hafði þó með ótrúlegum endaspretti tekist að stýra liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Leicester City var í vonlitli stöðu á botni deildarinnar stærsta hluta tímabilsins og allt leit út fyrir að liðið myndi falla.

Nigel Pearson tókst hinsvegar að kveikja í liðinu í lok tímabilsins og liðið bjargaði sér frá falli með því að vinna sjö af síðustu níu leikjum sínum tímabilið 2014-15.

Claudio Ranieri byggði ofan á starf Nigel Pearson og úr varð eitt mesta fótboltaævintýri sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×