Innlent

Maðurinn neitar að hafa tekið við ætluðum fíkniefnum frá hollensku móðurinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn sem ákærður er í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Maðurinn sem ákærður er í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag. vísir/ernir
Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri sem ákærður er fyrir að hafa tekið við tösku sem átti að innihalda um 20 kíló af fíkniefnum neitaði sök við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Hann var handtekinn við Hótel Frón í miðbæ Reykjavíkur í apríl síðastliðnum og viðurkenndi fyrir dómi í dag að hafa verið á staðnum en neitaði að öðru leyti sök.

Maðurinn er ákærður ásamt hollenskri konu fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en konan er ákærð fyrir innflutning á efnunum.Við þingfestingu málsins fyrr í mánuðinum neitaði konan sök en hún ætlar að skila skýrari afstöðu í greinargerð. Lögmaður hennar fékk í dag frest til 13. ágúst næstkomandi til að skila greinargerð í málinu.

Sjá einnig: Hollenska móðirin neitaði sök

Konan var handtekin ásamt dóttur sinni á föstudaginn langa þegar þær komu hingað til lands. Stúlkan er á táningsaldri og var í umsjá barnaverndaryfirvalda hér á landi en er nú komin til föður síns í Hollandi þar sem hún er ekki ákærð í málinu.

Í tveimur ferðatöskum sem mæðgurnar höfðu meðferðis fundust 194 grömm af kókaíni og um 10 kíló af MDMA. Í framhaldinu var móðirin notuð sem tálbeita og send á fund Íslendingsins. Hafði efnunum verið skipt út fyrir gerviefni.

Íslendingurinn, sem handtekinn var á Hótel Frón í miðbæ Reykjavíkur, fékk frest til að taka afstöðu til ákærunnar. Hann er talinn hafa ætlað að koma efnunum til ótilgreindra aðila hér á landi en í framhaldinu hafi átt að koma efnunum í söludreifingu.

Hollenska konan hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því hún var handtekin. Það rennur út þann 21. ágúst næstkomandi en aðalmeðferð málsins var ákveðin í dag og verður ekki fyrr en 29. september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×