Erlent

Maður skotinn með róandi ör eftir að hafa brotist inn í ljónabúr

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ljónin drápust bæði.
Ljónin drápust bæði. Vísir/Getty
Maður sem klifraði inn í ljónabúr, afklæddist og lék sér að því að stríða dýrunum þar til þau réðust að honum var skotinn með ör sem innihélt róandi lyf þegar dýragarðsverðir reyndu að bjarga lífi hans.

Atvikið átti sér stað í Santiago Metropolitan dýragarðinum í Chile. Gestir dýragarðsins fylgdust með furðulostnir en málinu lyktaði með því að starfsmenn skutu tvö ljónanna með þeim afleiðingum að þau drápust. Maðurinn var með sjálfsmorðsbréf í fórum sínum að því er kemur fram í frétt Guardian um málið.

Maðurinn er tvítugur og heitir Franco Luis Ferrada. Hann klifraði ofan á búr dýranna og braut sér leið inn. Samkvæmt vitnum létu ljónin hann upphaflega afskiptalausan en réðust á hann eftir að hann ögraði þeim. Dýragarðsverðir reyndu í fyrstu að sprauta vatni á dýrin og því næst með því að skjóta að þeim róandi lyfjum en eins og fyrr segir hafnaði slík ör í hálsi Ferrada. Þegar ekkert gekk og ljónin ógnuðu manninum ennfrekar skaut dýragarðsvörður dýrin sem drápust fyrir framan stóran hóp af dýragarðsgestum.

Ferrada var færður á gjörgæsludeild sjúkrahúss í bænum en hann slasaðist á höfði og mjaðmagrind auk þess sem hann hafði fengið risastóran skammt af róandi lyfjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×