Erlent

Maður á hjóli sprengdi sig í loft upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flak eins bílsins
Flak eins bílsins twitter
Í það minnsta 9 eru látnir og 35 eru særðir eftir að maður sprengdi sig í loft upp við bílalest nærri pakistönsku borginni Quetta í dag.

Talið er að Talíbanahópurinn TPP beri ábyrgð á árásinni og að sögn lögreglumanns á svæðinu var maðurinn á reiðhjóli þegar hann sprengdi sig upp.

Bílalestin var á vegum pakistanska hersins og átti sér stað nærri Quetta sem er í vesturhluta landsins. Að minnsta kosti 3 hermenn létu lífið í árásinni og ein 12 ára stúlka.

Quetta er í héraðinu Baluchistan þangað sem pakistönsk og kínversk stjórnvöld dæla milljarðatugum í margvísleg innviða- og orkuverkefni. Þrátt fyrir það er héraðið eitt það fátækasta og vanþróaðasta í landinu og hafa aðskilnaðarsinnar staðið fyrir margvíslegum og mannskæðum árásum þar í um áratug.

Þannig létu fimm pakistanskir hermenn og tveir meðlimir strandgæslunnar lífið í héraðinu í janúar ásamt því að sjálfsmorðssprengja varð fimmtán að bana nærri Quetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×