Fótbolti

Madrídingar úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði en það dugði ekki til.
Cristiano Ronaldo skoraði en það dugði ekki til. vísir/epa
Real Madrid er úr leik í spænska konungsbikarnum eftir 2-2 jafntefli við Celta Vigo í kvöld.

Celta Vigo vann fyrri leikinn 2-1 og einvígið því 4-3 samanlagt.

Staðan í hálfleik var 1-0, Celta í vil, en Danilo varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á 44. mínútu.

Cristiano Ronaldo jafnaði metin á 62. mínútu en Daniel Wass gerði Madrídingum erfitt fyrir þegar hann kom Celta Vigo aftur yfir fimm mínútum fyrir leikslok.

Varamaðurinn Lucas Vasquez jafnaði metin á lokamínútunni en nær komust leikmenn Real Madrid ekki. Lokatölur 2-2.

Eftir að hafa leikið 40 leiki í röð án taps hefur Real Madrid fatast flugið að undanförnu. Liðið hefur aðeins unnið einn leik af síðustu fjórum og er nú úr leik í spænska konungsbikarnum.

Nágrannar Real Madrid, Atlético Madrid, gerðu einnig 2-2 jafntefli í kvöld, gegn Eibar. Atlético Madrid vann hins vegar fyrri leikinn 3-0 og fór því áfram, 5-2 samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×