Fótbolti

Madrídingar skoruðu sjö í bikarnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marco Asensio fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Marco Asensio fagnar fyrra marki sínu í kvöld. vísir/getty
Óhætt er að fullyrða að Real Madrid er komið áfram í 16 liða úrslit spænska Konungsbikarsins þrátt fyrir að það eigi eftir seinni leikinn gegn C-deildarliðinu Cultural y Deportiva Leonesa.

Lærisveinar Zinedine Zidane unnu sex marka sigur á útivelli í fyrri leik liðanna í kvöld, 7-1, og getur þjálfarinn því allt eins sent búningastjórann til leiks á Bernabéu um helgina í seinni leikinn.

Marco Asensio skoraði tvö mörk í leiknum líkt og Álvaro Norata en Nacho og Mariano Díaz skoruðu sitthvort markið. Fyrsta mark Evrópumeistaranna var sjálfsmark hjá leikmanni Cultural.

Real Madrid komst í 6-0 áður en Benja, leikmaður Cultural, minnkaði muninn í 6-1 og hélt draumum heimamanna á lífi. Þeir dóu endanlega þegar Díaz setti sjöunda markið á annarri mínútu í uppbótartíma.

Madrídingar hafa átt það til að lenda í vandræðum gegn neðrideildarliðum í bikarnum en sú var ekki raunin í kvöld. Liðið mætti til leiks með leikmenn á borð við Pepe, Daniolo, Toni Kroos, James Rodríguez og Isco og vann stórsigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×