Erlent

Macron tranar sér fram sem loftslagsleiðtogi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Macron tók vel á móti Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Nordicphotos/AFP
Macron tók vel á móti Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Nordicphotos/AFP
Á annað hundrað þjóðarleiðtoga, ráðherra, auðjöfra og annarra áhrifamanna komu til Élysée-hallar forseta Frakklands í gær. Emmanuel Macron hafði boðið mannfjöldanum þangað til fundar um loftslagsmál. Á meðal gesta voru rúmlega fimmtíu þjóðarleiðtogar, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, og vonaðist Macron til þess að fundurinn yrði til þess að styrkja baráttuna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Ásamt Macron stóðu Alþjóðabankinn og Sameinuðu þjóðirnar að fundinum. Var þar samþykkt að veita fjármagn til fátækari aðildarríkja samkomulagsins sem og að fjármagna tækniþróun á sviði loftslagsmála.

Athygli vakti að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, var ekki boðið. Það er að öllum líkindum vegna þeirrar ákvörðunar Trumps að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Macron hefur verið einn helsti gagnrýnandi þeirrar ákvörðunar og hefur meðal annars snúið upp á slagorð Trumps, „Make America Great Again“, og breytt því í „Make Our Planet Great Again“. Í viðtali við CBS í fyrrinótt sagði Frakkinn að úrsögnin hefði fært honum sjálfum meðbyr og hvatt hann til að leiða gagnstæða hreyfingu.

„Bandaríkin voru búin að skrifa undir. Mér fannst þetta algjör yfirgangssemi hjá Trump að ákveða upp á eigin spýtur að fara og vilja svo semja upp á nýtt. Það er ekki hægt að semja upp á nýtt af því að einn aðili samkomulagsins dró sig út úr því. Ég vil ekki gera það en ég myndi hins vegar taka aftur á móti Bandaríkjamönnum með opnum örmum,“ sagði Macron.

Í viðtali við franska dagblaðið Le Monde í gær sagði Macron að þrátt fyrir að Trump hefði dregið ríkið út úr samkomulaginu gætu einkaaðilar, sveitarfélög og ríki hjálpað Bandaríkjunum að standast kröfur samkomulagsins. Á meðal áhrifamanna innan bandarísks samfélags sem mættu voru Bill Gates, stofnandi Microsoft og ríkasti maður heims, Arnold Schwarzenegger, umhverfissinni og fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, og rafbílarisinn Elon Musk. Síðarnefndu mennirnir eru þó vissulega ekki fæddir í Bandaríkjunum.

Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York, sem margir vildu sjá bjóða sig fram gegn Trump og Hillary Clinton í fyrra, sagði í gær að umhverfisverndarsinnar víða um heim stæðu í þakkarskuld við Trump fyrir að hafa sameinað andstæðinga sína gegn sér. Bloomberg sagði jafnframt að America's Pledge, samtök fyrirtækja sem lofa að standast kröfur Parísarsamkomulagsins og Bloomberg er í forsvari fyrir, spönnuðu nú um helming bandaríska hagkerfisins.

Annar máttarstólpi alþjóðasamfélagsins, Angela Merkel Þýskalandskanslari, var heldur ekki mætt til fundar í gær. Henni var þó boðið og hún var gagnrýnd í heimalandinu fyrir fjarveru sína. Þykir sú fjarvera benda til þess að Merkel, sem kölluð var „Loftslagskanslarinn“ á sínum tíma vegna baráttu sinnar gegn loftslagsbreytingum, sé að víkja fyrir Macron. Með því að boða til þessa fundar hafi Macron styrkt sig í sessi sem forystumaður hreyfingarinnar.

Ýmsir einkaaðilar hafa nú þegar ákveðið að endurskoða stefnu sína þegar kemur að loftslagsmálum. Í fyrrinótt tilkynnti olíufélagið Exxon um heildarendurskoðun áhrifa fyrirtækisins á loftslagið og norski lífeyrissjóðurinn Storebrand greindi frá því í gær að nýr 136 milljarða króna sjóður hans myndi ekki fjárfesta í olíugeiranum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×