Erlent

Macri boðar kúvendingu í stjórnmálum Argentínu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mauricio Macri hlaut tæplega 52 prósent atkvæða í forsetakosningum á sunnudaginn.
Mauricio Macri hlaut tæplega 52 prósent atkvæða í forsetakosningum á sunnudaginn. Nordicphotos/AFP
Hægrimaðurinn Maur­icio Macri segir að tímamót verði í Argentínu með sigri sínum í forsetakosningum á sunnudaginn.

Hann ætli sér að styrkja efnahag landsins og fara allt aðra leið en forverar hans tveir, þau Christina Fernandez og Nestor Kirchner.

Fernandez hefur verið forseti landsins frá árinu 2007, en Kirchner, sem var eiginmaður hennar en nú er látinn, var forseti á undan henni, eða frá árinu 2003 til 2007.

Bæði voru þau vinstrisinnuð, stóðu í langvinnum átökum við erlenda lánardrottna og áttu í erfiðum samskiptum við Bandaríkin.

Macri kemur úr viðskiptaheiminum og hyggst bæta samskiptin, bæði við erlenda lánardrottna og Bandaríkin. Hann hefur meðal annars heitið því að fella niður tolla og gjöld af ýmsu tagi til að auðvelda erlendum fjárfestum að koma til landsins og koma þannig efnahagslífinu í gang.

Hann hefur heitið því að létta höftum af gjaldeyriskaupum, sem talið er að muni hafa í för með sér djúpa gengisdýfu argentínska pesóans, með tilheyrandi kaupmáttarskerðingu almennings. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×