Körfubolti

Má ekki spila með landsliðinu af því hann er ekki í réttum skóm

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dragan Bender með landsliði Króata á EM í fyrra.
Dragan Bender með landsliði Króata á EM í fyrra. Vísir/Getty
Dragan Bender er ekki bara einn allra efnilegasti leikmaður Króatíu og Evrópu heldur á hann möguleika á að verða framtíðarstjarna í NBA-deildinni ef marka má útsendara NBA-deildarinnar.

Dragan Bender fær samt ekki að spila með 19 ára landsliði Króata á HM unglinga sem fer þessa dagana fram í Grikklandi. Ástæðan er líklega skrýtnari en þær flestar því að leikmaðurinn og körfuboltasamband Króatíu eru ósammála um skó leikmannsins.

Dragan Bender er nefnilega með skósamning við Adidas og vill fá að spila í sínum skóm enda væri annað samningsbrot. Króatíska sambandið er aftur á móti með samning við Nike og vill að allir sínir leikmenn virði þann samning og spili í Jordan-skóm.

Leikmenn A-landsliðs Króata fá leyfi til að spila í sínum skóm en allir leikmenn unglingalandsliðana verða aftur á móti að virða fyrrnefndan samning.

Dragan Bender var allt í öllu með 18 ára landsliði Króata þegar liðið vann brons á EM í fyrra. Hann var þá með 14,4 stig, 10,4 fráköst og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik og var valinn í úrvalslið mótsins. Í leiknum um bronsið þá vantaði hann vara eitt frákast upp á þrennuna í 75-71 sigri á Grikkjum.

Útsendarar NBA-liðanna hafa mikla trú á þessum 211 sentímetra framherja og það er talið líklegt að hann verði meðal fimm efstu í nýliðavali NBA-deildarinnar á næsta ári.

Þrátt fyrir að Króatar hafi spilað án Dragan Bender og manni færri í mótinu þá er liðið komið alla leið í undanúrslitin þar sem liðið mætir Tyrklandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×