Innlent

Má búast við flughálku

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/anton brink
Nú hlánar hratt með hlýjum loftmassa og talsverðum sunnanvindi. Við þær aðstæður má búast við að flughálka myndir þar sem þjappaður snjór eða klaki er fyrir á vegum. Á norðanverðu Snæfellsnesi má búast við sunnan stormi og vindhviðum allt að 35 metrum á sekúndu. Í kvöld tekur svo að rigna og bætir enn frekar í hlákuna.

Færð og aðstæður

Greiðfært er nú orðið í nágrenni höfuðborgarinnar en hálkublettir eru í Þrengslum og hálka víða í uppsveitum Suðurlands. Þæfingsfærð er á Þingskálavegi og þungfært efst á Skeiðavegi og Landvegi. Flughált er á Krísuvíkurvegi og Suðurstrandavegi.

Á Snæfellsnesi hefur hlánað mikið og er þess vegna hætta á að klakastykki falli úr Búlandshöfða niður á veg og eru vegfarendur beðnir að fara varlega. Óveður er á Vatnaleið og á norðanverðu Snæfellsnesi og einnig er flughálka á Útnesvegi, Heydalsvegi og Skógarströnd. Flughált og óveður er á Laxárdalsheiði en annars er hálka eða hálkublettir mjög víða á Vesturlandi.

Flughálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum og einnig óveður í Ísafjarðardjúpi. Hálka er þó á Klettshálsi, Kleifaheiði, Mikladal og á Hálfdán. Á Norðvesturlandi er flughált fyrir Vatnsnes og frá Sauðárkróki í Ketilás annars er hálka á velflestum leiðum. Þæfingsfærð og óveður er á Öxnadalsheiði og flughált í Öxnadal. Óveður er á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er flughált frá Hjalteyri í Dalvík eins er flughált á Tjörnesi, í Köldukinn, Aðaldal og í Reykjahverfi. Þungfært er á Hólasandi annars er hálka mjög víða á vegum norðaustanlands og óveður á Möðrudalsöræfum.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austur- og Suðausturlandi.

Veðurvefur Vísis




Fleiri fréttir

Sjá meira


×