Enski boltinn

Lýsingar á leikjum Man. Utd héldu lífi í manni sem var haldið föngnum og pyntaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Shahbaz Taseer
Shahbaz Taseer mynd/bbc
Pakistananum Shahbaz Taseer var haldið föngnum af byssumönnum í ágúst árið 2011 í borginni Lahore í Pakistan. Hann var gripinn af þeim nokkrum mánuðum eftir að faðir hans var myrtur fyrir að mótmæla lögum Pakistan um guðlast.

Taseer var pyntaður miskunnarlaust á meðan hann var í haldi en útvarp sem stillt var á þáttinn Sportsworld á BBC hélt í honum lífi, að eigin sögn. Hann gat hlustað á útvarpslýsingar leikja með uppáhaldsliðinu sínu, Manchester United, og þannig barðist hann í gegnum óhugnaðinn.

„Útvarpið breytti öllu hjá mér. Það hélt mér heilum á geði. Ég hlakkaði til hvers laugardags og sunnudags þegar ég gat hlustað á Sportsworld,“ segir Taseer í viðtali við breska ríkisútvarpið en Sportsworld er gríðarlega vinsæll íþróttaþáttur sem er á dagskrá um helgar. Hlustun á hann í Afríku og austurlöndum fjær er mikil.

„Vörðurinn minn og ég fengum heyrnatól til að hlusta á leikina. Ég man þegar Ashley Young skoraði mark í Manchester-slagnum og ég trylltist eins og hver annar stuðningsmaður. Munurinn var að ég og vörðurinn héldum fyrir munninn á hvor öðrum en það heyrðust læti í keðjunum. Ég var hlekkjaður á höndum og fótum en ég fagnaði samt.“

„Þarna vorum við tveir menn frá sitthvorum heiminum. Ég fangi og hann með mig í haldi en báðir elskum við sama liðið. Samt gátum við ekki fagnað almennilega saman út af stöðinni sem við vorum í. Við nutum samt leiksins meira en allir í heiminum,“ segir Taseer.

Manchester United sendi Taseer áritaða treyju þegar það heyrði af raunum hans.

„Það gaf mér frið bara að heyra lýsandann öskra að Rooney skoraði mark þrátt fyrir að United var að tapa 3-1 eða eitthvað. Það gaf mér frið að heyra nöfnin og þegar menn töluðu um möguleg kaup eða sölur. Ég heyrði meðal annars kveðjuræðu Sir Alex Ferguson. Ég var með tár í augunum því ég vildi ekki að hann myndi hætta,“ segir Shabaz Taseer.

Allt viðtalið má heyra hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×