Innlent

Lýsa yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs.
Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs.
Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með frumvarp til fjárlaga 2015 en stúdentar hafa sent frá sér ályktun þess efnis.

Þar segir að allt frá stofnun Háskóla Íslands hafi vinnu, tíma og fjármunum verið varið í uppbyggingu grunnstoða hans, niðurskurður undanfarinna ára stofni þeim grunnstoðum í hættu.

„Í gegnum tíðina hefur sátt ríkt um að marka metnaðarfulla menntastefnu en undanfarin ár hefur fátt verið um efndir stjórnvalda. Ef áfram verður haldið á sömu braut er ljóst að smám saman heltist háskólinn úr lestinni í samkeppni háskóla á heimsvísu.“

Í ályktuninni segir einnig að í hnattvæðingu nútímans sé bein samkeppni við alþjóðasamfélagið um mannauð óhjákvæmileg.

„Nú á tímum er staðreyndin sú að fólk er síður bundið af landamærum og því verður að bjóða upp á samkeppnishæfa menntun á Íslandi. Þannig er byggður upp mikill mannauður og komið í veg fyrir að ungt og efnilegt fólk flytji úr landi. Góður háskóli er grunnur að góðu samfélagi.“

Helsta mælikvarðann við mat á ólíkum háskólakerfum milli landa má finna í skýrslu OECD, Education at a Glance 2014. Í skýrslunni eru m.a. fjárveitingar til háskólakerfa allra landa OECD mældar en árið 2008 hafði Ísland aðeins fjárveitingu sem nam 76% af meðaltali OECD landanna. Síðan þá hefur munurinn aukist og nú er svo komið að íslenska háskólakerfið fær aðeins 62% af meðalfjárveitingu OECD-landanna, sem samsvarar um 6 milljarða króna gati fyrir Háskóla Íslands.

„Ríkisstjórnin, í gegnum Vísinda- og tækniráð, hefur sett sér þá stefnu að árið 2016 verði fjárveitingar til háskólastigsins a.m.k. jafnar því sem nemur meðaltalsfjárveitingu í OECD-löndunum. Í Vísinda- og tækniráði sitja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Illugi Gunnarsson. Í fjárlagafrumvarpi 2015 er þó ekki gert ráð fyrir að auka fé til háskólanna svo einhverju nemi og er það áfellisdómur yfir þeim að framfylgja ekki stefnu sinni.“

Stúdentaráð segir einnig að í drögum að úttekt Evrópusambandsins á störfum ráðsins séu stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir ábyrgðarleysi sem fylgir því að setja markmið en aðhafast ekkert. „Stúdentaráð Háskóla Íslands fordæmir slík vinnubrögð og fer fram á að stjórnvöld fylgi eftir þeirri stefnu sem þau hafa sett sér.“

Ljóst sé að menntakerfið standi á miklum tímamótum og fjárfesting innan kerfisins nauðsynleg. Tækniþróun hafi búið til mikil tækifæri og krafan um nýjar og fjölbreyttari kennsluaðferðir hafi orðið sífellt háværari bæði innan og utan veggja háskólasamfélagsins.

„Sú fjárfesting sem þarf til að leggjast í kerfisbundnar breytingar sem þjóna þörfum nútímans mun ekki eiga sér stað í fjársvelti. Spurningunni um hvenær kennsluaðferðir taki á sig mynd 21. aldarinnar verður því fyrst og fremst svarað í fjárlögum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×