Enski boltinn

Lygilegur sigur Liverpool á Loftus Road | Sjáðu mörkin

QPR skoraði tvö sjálfsmörk í dag.
QPR skoraði tvö sjálfsmörk í dag. Vísir/Getty
Dramatíkin var í hámarki á Loftus Road í dag þegar Liverpool var í heimsókn. Fimm mörk litu dagsins ljós, en lokamínúturnar voru lyginni líkast.

Heimamenn í QPR voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og boltinn fór meðal annars í tvígang í þverslána, Glen Johnson bjargaði á línu og þar fram eftir götunum.

Þeim tókst ekki að skora gegn slökum Liverpool-mönnum í fyrri hálfleik og staðan var markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik fengu bæði lið færi, en fyrsta markið kom eftir 67. mínútu. Richard Dunne skoraði þá í eigin mark eftir fyrirgjöf Glen Johnson og gestirnir frá Bítlaborginni komnir yfir. Tíunda sjálfsmark Dunne í efstu deild!

Heimamenn voru ekki dauðir úr öllum æðum. Varamaðurinn Eduardo Vargas jafnaði metin þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum eftir darraðadans í teig Liverpool. Reiðarslag fyrir Liverpool.

Annar varamaður, Philippe Coutinho, vildi ekki vera minni maður. Eftir snarpa skyndisókn batt hann enda á hana með frábæru skoti og flestir héldu að Liverpool færi burt með stigin þrjú enda markið á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

Svo var ekki. Varamaðurinn Vargas jafnaði metin í uppbótartíma eftir hornspyrnu og nú héldu allir að leiknum væri lokið með jafntefli, en veislan var ekki búin.  

Eftir skyndisókn kom sigurmark leiksins. Liverpool-menn geystust upp eftir aukaspyrnu hjá QPR og það endaði með því að Steven Caulker skoraði annað sjálfsmark QPR í leiknum og tryggði Liverpool sigur.

Liverpool er í fimmta sæti deildarinnar með þrettán stig, en QPR er á botninum með fjögur stig.

Liverpool komst yfir með sjálfsmarki Richard Dunne: Eduardo Vargas jafnaði fyrir QPR: Coutinho kom Liverpool aftur yfir: Vargas jafnaði öðru sinni fyrir QPR: Ótrúlegt sigurmark Liverpool í uppbótartíma var sjálfsmark heimamanna:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×