Sport

Lyfjaprófunin á ÓL í Ríó eitt risastórt klúður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Alþjóðalyfjastofnunin, WADA, hefur gefið frá sér stuðandi skýrslu um hvernig lyfjaeftirlitið gekk á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu í sumar en niðurstöðurnar eru ekki glæsilegar.

Það er ekki hægt að lesa annað úr þessari skýrslu WADA en að lyfjaprófunin á ÓL í Ríó hafi hreinlega verið eitt risastórt klúður.

Meðal annars kemur fram að allt að helmingur skipulagðra lyfjaprófa hafi ekki farið fram. Margir íþróttamenn sem áttu að fara í lyfjapróf fundust hreinlega ekki og ekkert varð því af prófinu. Á sumum dögum varð ekkert af um fimmtíu prósent lyfjaprófanna.

Skýrslan er ítarleg og upp á 55 blaðsíður. Þar kemur fram að 11.470 íþróttamenn hafi tekið þátt í Ólympíuleikunum í Ríó í ágústmánuði en 4125 þeirra hafi aldrei farið í lyfjapróf á árinu 2016. 1913 þeirra voru að keppa í svokölluðum áhættusömum íþróttagreinum þegar kemur að ólöglegri lyfjanotkun.

Það voru allskonar vandmál í gangi. Næstum því hundrað sýni voru ómerkt það er það var ekki hægt að finna út hvaðan þau komu. Eitt sýnið týndist og fannst ekki fyrr en eftir tvær vikur. Þá var lítið sem ekkert tekið af blóðsýnum í keppni og engin próf á fótboltafólki utan keppnistaðanna.

Fimm hundruð færri próf voru framkvæmd en áætluð voru og 8. ágúst var gat tölvukerfið aðeins gefið upplýsingar um dvalarstað 4795 af 11.470 íþróttamönnum sem voru að fara að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó.

Tungumálaerfiðleikar og vandræði með samgöngur áttu líka sinn þátt í því hversu illa gekk að lyfjaprófa íþróttafólkið í Ríó.

BBC fór yfir niðurstöður skýrslunnar og má finna frétt BBC hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×