Sport

Lyfjahneyksli skekur frjálsíþróttaheiminn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enska blaðið Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD hafa í fórum sínum gögn sem sýna fram á lyfjamisnotkun margra af fremstu frjálsíþróttamanna og -kvenna heims. Gögnunum var lekið til fjölmiðla á dögunum.

Þetta er niðurstaða úr um 12.000 blóðsýnum úr 5000 íþróttamönnum. Alls eru 146 verðlaunahafar, þar af 55 Ólympíu- og heimsmeistarar í þolgreinum, sagðir vera með grunsamleg blóðsýni. Sýnin voru tekin á árunum 2001-12.

Í þessum hópi eru tíu verðlaunahafar á Ólympíuleikunum í London 2012. Enginn þessara verðlaunahafa hafa verið sviptir verðlaunum sínum.

Samkvæmt skýrslunni eru Rússar stórtækastir í þessum efnum en 80% verðlaunahafa þeirra eru sagðir vera með óhreint mjöl í pokahorninu.

Birgir Guðjónsson, læknir og einn helsti sérfræðingur Íslands í lyfjamálum íþróttamanna, segir að þessar fréttir hafi ekki komið sér á óvart.

„Nei, alls ekki. Þetta efni, EPO, kom fyrst fram 1989 og kom inn á bannlistann 1995. Það er mjög erfitt að greina þetta og það er vitað að þetta yrði notað. Lance Armstrong tókst að fela það í næstum áratug,“ sagði Birgir í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

En af hverju hefur ekkert verið gert í málinu fyrr en núna?

„Það er svo erfitt að greina efnið. Þetta brotnar fljótt niður í líkamanum og það hefur reynst erfitt að sanna að um inntöku efnisins hafi verið að ræða. Það hefur verið þróun í þessu í mörg ár og það er kannski vegna þess sem menn hafa farið í gömlu sýnin og séð að þau eru ekki hrein,“ sagði Birgir en innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×