Erlent

Lyf sem gagnast milljónum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hans Forssberg, frá sænsku Nóbelsnefndinni, kynnir verðlaunahafa ársins í læknisfræði á blaðamannafundi í Stokkhólmi í gær.
Hans Forssberg, frá sænsku Nóbelsnefndinni, kynnir verðlaunahafa ársins í læknisfræði á blaðamannafundi í Stokkhólmi í gær. vísir/epa
Þrír vísindamenn deila með sér Nóbelsverðlaununum í læknisfræði í ár. Verðlaunin verða afhent í Svíþjóð í desember.

Kínverski vísindamaðurinn Tu Youyou fær verðlaunin fyrir að uppgötva lyf sem nefnist artemisinin og er notað við malaríu. Lyfið bjargar milljónum árlega.

Þá uppgötvuðu Japaninn Satoshi Omura og Bandaríkjamaðurinn William Campbell lyf sem nefnist avermectin og gagnast milljónum manna gegn tveimur erfiðum sjúkdómum; fljótablindu og fílaveiki.

Öllum þessum þremur sjúkdómum valda sníkjudýr, sem herja á fólk. Malarían berst í menn með moskítóflugum, sem skilja eftir sig einfrumunga sem ráðast á rauðu blóðkornin og valda stundum heilaskemmdum og dauða.  

Fljótablindan og fílaveikin berast í menn með hringormum. Fljótablindan getur, eins og nafnið bendir til, valdið blindu en fílaveikin veldur miklum bólgum í fótum og víðar á neðri hluta líkamans.

„Þessar tvær uppgötvanir hafa fært mannkyninu öflug ný tæki í baráttunni við þessa sjúkdóma, sem hafa áhrif á hundruð milljóna manna á ári hverju,“ segir í tilkynningu frá sænsku Nóbelsnefndinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×