Skoðun

Lýðræðishalli í 20 ár

Bjarnveig Eiríksdóttir skrifar
EES-samningurinn er í sífelldri mótun. Sameiginlega EES-nefndin sem Ísland á sæti í ákveður hvort taka beri ESB-reglur inn í EES-samninginn. Erfitt er að fá undanþágu frá ESB-reglum. Þurfa jafnan sérstakar aðstæður að koma til en ekki dugar að bera fyrir sig skort á vilja til að undirgangast regluna. Eftir að sameiginlega nefndin hefur samþykkt að taka ESB-reglur inn í EES-samninginn er íslenskum stjórnvöldum skylt að leiða þessar reglur í lög.

Fimmtungur laga kemur frá Brussel og Lúxemborg

Í þau rúm tuttugu ár sem liðið hafa síðan EES-samningurinn tók gildi hafa streymt gegnum Alþingi lagafrumvörp sem ætlað er að innleiða reglur sem sameiginlega EES-nefndin hefur bætt við EES-samninginn. Af þingmálaskrá Alþingis má sjá að nálægt 20% af lagafrumvörpum sem koma fyrir Alþingi á hverju löggjafarþingi mæla fyrir um lögfestingu á EES-reglum. Í sumum tilvikum gefa reglurnar sjálfar ákveðið svigrúm til aðlögunar að íslenskum hagsmunum. Að því slepptu verður ekki betur séð en að lögin sem Alþingi setur til framkvæmdar EES-reglum séu ekki samin við Austurvöll heldur í Brussel og Lúxemborg.

Viðvarandi lýðræðishalli

Fyrir lýðræðið er það ekki ákjósanleg staða að þurfa að undirgangast lagareglur sem Alþingi hefur lítil áhrif haft á. Ekki er þó auðvelt að sjá leiðir til úrbóta aðrar en að stjórnvöld vinni að því að koma sjónarmiðum sínum að í löggjafarferli ESB eftir því sem kostur er. En hvaða reglur eru þetta og hefur það verið skaðlegt að ekki hefur tekist að koma að íslenskum sjónarmiðum í löggjafarferli hjá ESB? EES-reglur lúta flestar að lagaumgjörð í viðskiptalífinu og réttindum einstaklinga. Oft á tíðum eru þetta svo tæknilegar reglur að aðeins er á færi sérfræðinga að meta undirliggjandi hagsmuni. Umræður um skaða á íslenskum hagsmunum hafa ekki verið áberandi en nauðsynlegt er að skoða þetta atriði sérstaklega.

Markaðir opnir í tuttugu ár

Því má ekki gleyma að mikilvægasta lagabreytingin sem varð með EES hlýtur að teljast lögfesting EES-laganna sem innihalda reglurnar um fjórfrelsi, samkeppni og ríkisaðstoð. Þessar reglur voru afrakstur þriggja ára samningaferlis sem íslenska ríkið tók þátt í og kom sínum sjónarmiðum að. Með þessum grunnreglum voru línurnar lagðar. Markaðir skyldu opnaðir og mismunun eftir þjóðerni var bönnuð. Þetta þykja svo sjálfsögð réttindi í dag að furðu sætir að hið gagnstæða hafi áður liðist.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×