Innlent

Lúsin komin á stjá þrátt fyrir að börn séu vart mætt í skólann

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lúsin er komin á stjá í grunnskólum landsins og hafa foreldrar margir hverjir fengið tölvupóst þess efnis, þar sem þeir eru hvattir til að kemba börnunum. Grunnskólar voru settir á mánudag og hófst skólastarf í gær, og voru börnin því vart komin í skólann þegar fregnir tóku að berast af lús í hári nemenda.

Samfélagið aldrei lúsalaust

Heiðlóa Ásvaldsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Laugarnesskóla og Lækjarskóla, segir að lúsin sé á kreik allan ársins hring. Lúsapóstar hafi í hennar skólum verið sendir út áður en skólastarf hófst og að það hafi verið til að fyrirbyggja það að lúsin láti á sér kræla og að ítreka mikilvægi þess að foreldrar kembi börnum sínum með reglulegu millibili.

„Lúsin er í rauninni allt árið hjá okkur. Fólk er farið að ferðast mikið erlendis þannig að við erum aldrei með lúsalaust samfélag orðið. Þannig að svo þegar krakkarnir fara í nánari snertingu þegar skólarnir byrja þá á hún auðveldara með að smitast á milli barna,“ segir Heiðlóa.

Allir þurfi að leggjast á eitt

Aðspurð segir hún lúsasmit hafa aukist töluvert á síðustu árum.

„Undanfarin ár hefur verið toppur í lús í grunnskólum landsins og það er verið að senda pósta snemma og ég hef til dæmis síðustu tvö árin haft það þannig að senda póst áður en skólinn byrjar og bið fólk um að athuga hjá sínum börnum hvort þau eru með lús þannig að þau komi lúsalaus í upphafi skóla.“

Því þurfi allir að leggjast á eitt. „Þá er þetta miklu auðveldara ef allir taka þátt og gera þetta, þá á þetta ekki að vera stórt vandamál. Vissulega er þetta alltaf þannig að það eru einhverjir sem gera þetta ekki og aðrir sem eru ofursamviskusamir. En þetta er held ég hluti af því sem við þurfum að gera hjá börnunum okkar. Við þurfum að klippa neglurnar og greiða hárið, og við þurfum að athuga hvort það sé lús. Við þurfum bara að sætta okkur við þá staðreynd,“ segir Heiðlóa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×