Skoðun

Lúpínan – ýmist elskuð eða hötuð?

Þórunn Pétursdóttir skrifar
Þessa dagana litast hluti Íslands af fallega bláum lit lúpínunnar. Fólk fer mikinn og ýmist lýsir velþóknun eða vanþóknun sinni á þessari öflugu plöntu. Það skiptir sér í hópa eftir því hvort það er „með eða á móti lúpínu“ og skammast yfir öllum þeim sem voga sér að vera á öndverðum meiði, svo ekki sé nú talað um þá sem leyfa sér að sjá bæði kosti og galla plöntunnar. Ég ætla að leyfa mér að tala fyrir hönd síðastnefnda hópsins.

Alaskalúpína er þeim kostum búin að geta unnið köfnunarefni úr andrúmsloftinu með aðstoð gerla sem lifa á rótum hennar. Það gerir henni kleift að þrífast á rýru landi þar sem aðrar plöntur eiga erfiðara uppdráttar. Hún á það líka til að breiðast út yfir gróið land eins og rýrt mólendi. Hún myndar næringarríkan jarðveg og hefur jákvæð áhrif á fuglalíf og smádýralíf. Lúpínan er fjölær. Hún dreifir sér aðallega með fræjum og myndar með tímanum mjög þéttar breiður sem birki og aðrar ljóselskar plöntur eiga mjög erfitt með að nema land innan. Það eru helst grös eða hávaxnar plöntur eins og skógarkerfill eða hvönn sem ná að nema land innan lúpínubreiða.

Lúpínan er stundum notuð til að bæta rýrt land áður en skógi er plantað í það. Hún hefur einnig verið notuð á völdum svæðum við þjóðveg 1 til að binda sand og bæta þannig umferðaröryggi. En í flestum tilfellum hefur henni verið dreift án nokkurra markmiða annarra en að bæta landið. Það er í sjálfu sér mjög göfugt en eitt og sér getur það þó snúist upp í andhverfu sína. Um miðja síðustu öld þegar byrjað var að nota plöntuna til landbóta hérlendis, bundu menn vonir við að hún myndi haga sér í íslenskri náttúru eins og hún gerði í Alaska. Þar hopar hún fyrir öðrum gróðri á fáum árum. Það reyndist ekki alls kostar rétt og enn eru of fá dæmi þess að lúpínan hörfi fyrir öðrum gróðri þrátt fyrir yfir 60 ára notkunarsögu. Skógarkerfillinn kann þó vel að meta næringarríkan jarðveg lúpínubreiðanna og virðist í nokkrum tilfellum vera að taka yfirhöndina. Kerfillinn virðist þó almennt ekki vel þokkaður og þykir mörgum hann jafnvel verri kostur en lúpínan sem hann eltir.

Gagn eða ógagn?

Lúpínan getur aukið tegundafjölbreytni en hún virðist mun oftar viðhalda einsleitu gróðurfari. Það fer allt eftir aðstæðum þar sem henni er dreift, staðsetningu, úrkomu, meðalhita o.fl. Lúpína er í dag útbreidd um allt láglendi Íslands og telst orðið með algengari plöntum flórunnar. Síðustu árin hefur mikið dregið úr sáningu lúpínufræs en reynslan sýnir okkur að útbreiðsla lúpínu á engu að síður eftir að margfaldast á næstu árum.

Sem dæmi má nefna að undanfarin 30 ár eða svo var henni dreift í talsverðum mæli á röskuð svæði til landbóta. Allflest þessara svæða eru enn þakin þéttum lúpínubreiðum sem eru mun stærri en upphaflega sáningarsvæðið og fá merki virðast um að plantan sé farin að hörfa og aðrar tegundir að taka yfir. Á sama tíma hafa örfoka melar sem fengu lítinn skammt af tilbúnum áburði fyrir um 30 árum klæðst fjölbreyttum gróðri. Stundum er nefnilega nóg að ýta létt við röskuðum vistkerfum og leyfa síðan náttúrunni að hafa sinn gang.

Það er því langt í frá víst að lúpína sé alltaf góður valkostur til að græða upp land og bæta jarðvegsgæði. Notkun hennar er aðeins einn af mörgum möguleikum sem þarf að skoða þegar nýjar landbótaaðgerðir eru skipulagðar. Það bendir allt til þess að lúpínan gjörbreyti gróðurfari landsins til framtíðar og því þarf frekari dreifing plöntunnar að byggjast á faglegum forsendum og skýrum framtíðarmarkmiðum, ekki skammtímalausnum og tilfinningasemi.




Skoðun

Sjá meira


×