Lífið

Lukas hrifinn af orðinu "smjör“

Kjartan Guðmundsson skrifar
„Ég hef séð nokkrar íslenskar kvikmyndir en hef því miður aldrei séð Hrafninn flýgur,“ segir sænski kvikmyndaleikstjórinn Lukas Moodysson þegar blaðamaður spyr hann út í þá lífseigu sögu að nánast allir sænskir grunnskólanemar hafi séð víkingamynd Hrafns Gunnlaugssonar og einkennissetning myndarinnar, „Þungur hnífur“, sé á allra vörum hjá grönnum okkar.

Moodysson, sem er fæddur árið 1969 (sem aftur gæti hugsanlega orsakað þekkingarleysi hans á verkum Hrafns Gunnlaugssonar), er heiðursgestur Reykjavík Film Festival (RIFF) í ár, fær afhent sérstök verðlaun fyrir „framúrskarandi listfengi“ (Creative Excellence Award) og nýjasta myndin hans, Vi är bäst!, verður sýnd á hátíðinni ásamt tveimur eldri myndum eftir leikstjórann, Container frá 2006 og Fucking Åmål frá 1998.

Sú síðastnefnda, ástarsaga tveggja unglingsstúlkna í sænskum smábæ, kom Moodysson á kortið og í kjölfarið fylgdu myndir sem nutu mikilla vinsælda og aðdáunar gagnrýnenda víða um heim, eins og Tillsammans frá árinu 2000 og Lilya 4-ever frá 2002.

Umdeildasta verk leikstjórans er vafalaust myndin Ett hål i mitt hjärta frá 2004, en umfjöllunarefni hennar er áhugaklámmyndagerð. Þótti mörgum Moodysson ganga fulllangt í lýsingum á þeim viðbjóði sem fylgir klámmyndaiðnaðinum en aðrir hrósuðu myndinni fyrir raunsæi.

Nýjasta mynd Moodysson, Vi är bäst!, fjallar um þrjár táningsstelpur í úthverfi Stokkhólms sem stofna pönkhljómsveit og er handritið byggt á teiknimyndasögunni Aldrig godnatt eftir eiginkonu leikstjórans, Coco Moodysson.

„Sagan er 82,3 prósent sjálfsævisöguleg,“ segir Moodysson, en myndin gerist árið 1982 þegar þau hjónin voru á svipuðum aldri og höfuðpersónur Vi är bäst!. „Myndin er einhvers konar blanda af skáldskap og raunveruleika. Við Coco erum næstum jafn gömul og við vorum mjög svipuð sem tólf eða þrettán ára krakkar árið 1982. Við hlustuðum til dæmis á sömu tónlistina en hún var aðeins meira töff en ég,“ segir Moodysson.

Pönkstelpur í nýrri mynd Lukasar.
Veit ekki hvað "fílgúdd" þýðir

Margir gagnrýnendur hafa sagt að með Vi är bäst! snúir þú aftur til „fílgúdd“-mynda í kjölfarið á dekkri og tilraunakenndari verkum þínum hin síðari ár. Er það rétt?

„Ég veit í rauninni ekki hvað „fílgúdd“ þýðir. Það er hugtak sem ég myndi aldrei nota sjálfur en líklega er rétt að með Vi är bäst! vildi ég snúa aftur til beinskeyttari, fyndnari og hamingjusamari áherslna. En það er aldrei birta án myrkurs eða myrkur án birtu heldur er þetta sambland eins og allt annað í lífinu. Ég vona þó að áhorfendur hlæi þegar þeir sjá þessa mynd og helst tvisvar eða þrisvar. Ég mun alltaf fara fram og til baka milli glaðlegra og sorgmæddra mynda. Þetta eirðarleysi er líklega slæmt, en ég efast um að ég geti breytt þessu.“

Höfuðpersónur Vi är bäst! eru kvenkyns, rétt eins og í Fucking Åmål, Lilya 4-ever og fleiri myndum þínum. Líður þér betur með að segja sögur út frá sjónarhóli kvenna?

„Já. Einhverra hluta vegna tengi ég betur við konur en karla. Auðvitað eru til undantekningar en almennt séð eru konur áhugaverðari en karlmenn. Ég veit samt ekki hvort það á við með Vi är bäst! Sagan er eins og hún er, fjallar um þrjár stelpur sem stofna hljómsveit. Ég gat í rauninni ekki breytt því yfir í þrjá stráka sem stofna hljómsveit því það hefði orðið leiðinlegt. Pönkið eins og það lagði sig var frekar karllægt og það er skemmtilegra að rifja það upp í öðru samhengi.“

Fucking Åmål kom Lukas á kortið.
Hataði Svíþjóð árið 1982

Hvernig var þín upplifun af Svíþjóð í upphafi níunda áratugarins?

„Það er ansi góð og stór spurning. Leikkonurnar sem leika aðalhlutverkin í Vi är bäst!, Bobo, Klara og Liv, voru spurðar af blaðamanni um daginn hvað þeim þætti um þennan tíma, upphaf níunda áratugarins. Þær eru fæddar á tíunda áratugnum og eftir aldamót og svöruðu að þeim þætti eins og þá hefði allt gengið hægar fyrir sig, stressið hefði verið minna og tónlistin betri. En þær sögðu líka að þær gætu átt í erfiðleikum með að aðlagast gsm-símalausri tilveru. Þetta er svo skrítið. Við mannfólkið aðlögumst ótrúlega hratt og núna getum við ekki lifað án einhvers sem við hefðum ekki getað ímyndað okkur að myndi nokkurn tíma vera til.“

Varstu hamingjusamur unglingur?

„Almennt séð elska ég Svíþjóð en árið 1982 hataði ég Svíþjóð. Ég hataði meira og minna allt. Kannski snýst þessi kvikmynd um að breyta öllu þessu hatri og allri þessari reiði í eitthvað uppbyggilegt. Kannski snýst hún um eitthvað allt annað. Ég leyfi áhorfendum að ákveða það.“

Fræddist um Bobby Fischer

Nú hefur þú verið viðstaddur sýningar á myndum þínum úti um allan heim. Bregðast áhorfendur við verkum þínum á mismunandi hátt eftir því hverrar þjóðar þeir eru?

„Mér finnst ég mun nánari Norðurlöndunum en nokkrum öðrum löndum. Restin af heiminum er skrítin og framandi og erfið fyrir örsmáa heilann minn að skilja, en á Íslandi, Noregi og Finnlandi líður mér nánast eins og ég sé heima hjá mér. En ég er ekki viss varðandi viðtökurnar á myndunum mínum. Ég er bara hamingjusamur ef einhverjum sjö finnst þær góðar og þá skiptir mig engu hvort þeir búa á Íslandi eða í Pakistan.“

Þú ert heiðursgestur RIFF-kvikmyndahátíðarinnar í lok september. Hlakkarðu til heimsóknarinnar?

„Ég hef komið einu sinni til Íslands og fannst það frábært. Ég var sérstaklega hrifinn af orðinu „smjör“, sem er „smör“ á sænsku. Ég veit ekki hvers vegna þetta smáatriði festist í höfðinu á mér, en mér finnst „smjör“ alveg frábært orð. Það er er svo líkt sænska orðinu en samt svo rosalega ólíkt út af þessu litla joði. Ég ætlaði meira að segja að kaupa fullt af smjöri til að taka með mér heim til Svíþjóðar, en hætti við því mér fannst það fullóskynsamlegt. Ég keypti mér líka frímerki í frímerkjaverslun og spjallaði við eigandann um Bobby Fischer, sem var enn á lífi þá. Þetta var góður dagur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×