Enski boltinn

Luiz fullkominn í nýju kerfi Chelsea því hann þarf ekki að dekka neinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Luiz þarf minna að glíma við ása eins og Sergio Agüero í 3-4-3 kerfinu.
David Luiz þarf minna að glíma við ása eins og Sergio Agüero í 3-4-3 kerfinu. vísir/getty
David Luiz, miðvörður Chelsea, er að blómstra í nýju leikkerfi liðsins undir stjórn Antonio Conte en það virðist henta honum alveg fullkomlega. Þetta segir Ruud Gullit, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea, í ítarlegri greiningu á Luiz á vef BBC.

Luiz spilaði með Chelsea frá 2011-2014 og gerði 1,4 mistök í leik sem leiddu til færis mótherjans. Margir efuðust um ákvörðun Conte að kaupa Brassann á lokadegi félagaskipta í ágúst en nú er hann bara að gera 0,6 mistök í leik og Chelsea er búið að vinna átta leiki í röð.

„Ég skil að það voru efasemdir því Conte er þekktur fyrir góðan varnarleik á sama tíma og Luiz er þekktur fyrir að slökkva á sér í varnarleiknum og vera svolítið kærulaus,“ segir Gullit.

„Luiz er núna 29 ára gamall og er enn leikmaður sem getur gert mistök en 3-4-3 leikkerfið sem Chelsea spilar gerir Conte kleift að nýta frekar styrkleika Luiz vegna leikmannanna sem hann er með í kringum sig.“

„Fyrir framan vörnina eru N'Golo Kante og Nemanja Matic að verja varnarlínuna en lykilatriðið fyrir Luiz í þessari þriggja manna miðvarðalínu er að hann þarf ekki að dekka neinn. Gary Cahill og Cesar Azpilicueta gera það og vinna skítavinnuna fyrir Luiz.“

„Luiz lendir í vandamálum þegar hann spilar í fjögurra manna varnarlínu en í 3-4-3 er hann meiri sópari og þarf ekki að fara í jafnmörg návígi og aðrir varnarmen Chelsea. Þetta hentar honum vel og svo fær hann meira frjálsræði en áður,“ segir Ruud Gullit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×