Erlent

Lufthansa og Germanwings mögulega skaðabótaskyld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Germanwings er dóttufélag þýska flugfélagsins Lufthansa
Germanwings er dóttufélag þýska flugfélagsins Lufthansa Vísir/AFP
Þýsku flugfélögin Lufthansa og  Germanwings gætu verið skaðabótaskyld gagnvart aðstandendum þeirra sem fórust í flugslysinu í frönsku Ölpunum síðastliðinn þriðjudag. Þetta hefur breska blaðið Guardian eftir lögfróðum mönnum.

Flest þykir benda til þess að aðstoðarflugmaðurinn Andreas Lubitz hafi flogið vélinni viljandi á fjallgarðinn með þeim afleiðingum að hann og 149 manns til viðbótar létu lífið.

Komið hefur í ljós að flugmaðurinn átti við veikindi að stríða sem hann hélt leyndum frá vinnuveitendum og samstarfsfélögum sínum.

Í Guardian segir að það geti orðið erfitt fyrir flugfélögin að halda uppi vörnum varðandi það að enginn hafi sýnt af sér vítavert gáleysi eða vanrækslu í slysinu þar sem vísbendingarnar bendi til annars.

„Það þarf þó að fara að öllu með gát varðandi það hvort að félögin eru á endanum skaðabótaskyld. En miðað við það sem við vitum núna verður erfitt fyrir þau að sýna fram á að einhver á þeirra vegum hafi ekki sýnt af sér vítavert gáleysi eða vanrækslu og þannig orðið valdur af slysinu, hvort sem það var viljandi eða ekki,“ segir Clive Garner, lögmaður, sem hefur starfað fyrir fjölskyldur farþega sem hafa látist í flugslysum.


Tengdar fréttir

Síðustu mínútur flugsins

Þrjátíu mínútna hljóðupptaka úr flugstjórnarklefa vélarinnar hefur gefið skýrustu myndina af atburðarrásinni hingað til þegar flugvél Germanwings brotlenti í Ölpunum á þriðjudaginn.

Vara við fordómum gagnvart þunglyndum

Sálfræðingar í Bretlandi segja umrætt þunglyndi Andreas Lubitz gæti leitt til þess að fleiri forðist það að leita hjálpar við þunglyndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×