Enski boltinn

Lucas skaut Liverpool áfram í bikarnum þar sem liðið mætir næst Jóni Daða og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool skrölti áfram í enska bikarnum í kvöld þegar það lagði D-deildarlið Plymouth, 1-0, í endurteknum leik í þriðju umferð keppninnar.

Eina mark leiksins skoraði Brasilíumaðurinn Lucas á 19. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu samlanda síns Philippe Coutinho í netið.

Plymouth fékk tvö dauðafæri í leiknum til að jafna metin en tókst ekki að skora. Liverpool fékk einnig nokkur færi en á endanum var það mark Brassans sem kom Liverpool í fjórðu umferðina. Þar mæta lærisveinar Jürgens Klopps íslenska landsliðsmanninum Jóni Daða Böðvarssyni og félögum hans í Wolves en leikurinn fer fram á Anfield.

Southampton marði einnig sigur á Norwich, 1-0, þar sem Shane Long skoraði eina mark leiksins á 90. mínútu. Dramatík á St. Mary's en Dýrlingarnir áfram. Southampton mætir Arsenal í fjórðu umferðinni en leikurinn verður spilaður á heimavelli Dýrlinganna.

Newcastle spilaði einnig endurtekinn leik á móti Birmingham í kvöld á heimavelli og vann sannfærandi sigur, 3-1. Newcastle mætir Oxford United í fjórðu umferðinni.

Mark Lucas Leiva má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×