Handbolti

Löwen vann toppslaginn | Kiel í erfiðri stöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander sækir að vörn Kiel.
Alexander sækir að vörn Kiel. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen náði sex stiga forskoti á Kiel á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir fjögurra marka sigur, 24-20, í leik liðanna í Mannheim í kvöld.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hafa tapað þremur af fyrstu níu leikjum sínum í þýsku deildinni og eru komnir í erfiða stöðu enda er Löwen ekki líklegt til að tapa mörgum stigum miðað við spilamennsku liðsins það sem af er tímabili.

Ljónin voru mun sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með sex mörkum að honum loknum, 13-7.

Löwen var með góða forystu framan af seinni hálfleik en í stöðunni 15-11 hleypti Kiel spennu í leikinn með því að skora þrjú mörk í röð. Nær komust þýsku meistararnir hins vegar ekki og heimamenn héldu þeim í hæfilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks. Lokatölur 24-20, Löwen í vil.

Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Löwen en Uwe Gensheimer var markahæstur í liði Ljónanna með sjö mörk, þar af fimm af vítalínunni. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Spánverjinn Joan Canellas var markahæstur í liði Kiel með fimm mörk.

Alfreð var í öngum sínum á hliðarlínunni í kvöld.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×