Handbolti

Löwen sló Kiel úr leik | Öruggt hjá Magdeburg og Füchse Berlin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Löwen í kvöld.
Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Löwen í kvöld. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen sló Þýskalandsmeistara Kiel út úr þýsku bikarkeppninni með þriggja marka sigri í kvöld, 29-26. Löwen er því komið í undanúrslit bikarkeppninnar ásamt Magdeburg og Füchse Berlin. Síðar í kvöld kemur það svo í ljós hvort Gummersbach eða Flensburg verði fjórða liðið í undanúrslitunum.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 15-14, Ljónunum í vil.

Löwen byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði mest fjögurra marka forystu, 20-16. Kiel svaraði með þremur mörkum á tæpri mínútu. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar jöfnuðu svo metin, fyrst í 20-20 og svo í 21-21.

En Ljónin reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum þriggja marka sigur, 29-26.

Uwe Gensheimer og Bjarte Myrhol voru markahæstir í liði Löwen með sex mörk en Alexander Petersson og Kim Ekdahl du Rietz komu næstir með fimm mörk hvor. Þá átti Niklas Landin góðan leik í marki Ljónanna. Stefán Rafn Sigurmannsson var ekki á meðal markaskorara.

Marko Vujin skoraði sjö mörk fyrir Kiel. Aron Pálmarsson komst ekki á blað en gaf tvær stoðsendingar.

Lærisveinar Geirs Sveinssonar í Magdeburg hafa verið á frábæru skriði að undanförnu og þeir rúlluðu yfir Göppingen á heimavelli, 32-17.

Eins og tölurnar bera með sér hafði Magdeburg mikla yfirburði í leiknum en staðan í hálfleik var 12-6, lærisveinum Geirs í vil.

Austurríski hornamaðurinn Robert Weber var markahæstur í liði Magdeburg með 11 mörk. Matthias Musche kom næstur með átta mörk.

Fyrr í kvöld vann Füchse Berlin öruggan tíu marka sigur, 19-29, á Leipzig á útivelli. Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans eiga því möguleika á að verja bikarmeistaratitilinn sem þeir unnu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×