Handbolti

Löwen kastaði sigrinum og sæti í bikarúrslitum frá sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði fjögur mörk í leiknum.
Alexander skoraði fjögur mörk í leiknum. vísir/epa
Rhein-Neckar Löwen mistókst að komast í úrslit þýsku bikarkeppninnar í handbolta en liðið tapaði með einu marki, 30-31, fyrir Flensburg í fyrri undanúrslitaleiknum í Barclaycard Arena í Hamborg í dag.

Ljónin frá Mannheim voru komnir með annan fótinn í úrslitaleikinn en þau leiddu með tveimur mörkum, 26-24, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum.

Holger Glandorf minnkaði muninn í 26-25 fyrir Flensburg og Löwen tapaði boltanum í næstu sókn.

Flensburg fór í sókn og Thomas Mogesen fiskaði víti sem Anders Eggert skoraði úr og tryggði sínum mönnum framlengingu.

Löwen náði aftur tveggja marka forskoti í framlengingunni en leikmenn Flensburg gáfust ekki upp og sigu fram úr á lokamínútunum. Þeir unnu svo að lokum eins marks sigur, 30-31.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Löwen í dag en Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Flensburg mætir annað hvort Bergischer eða Magdeburg í úrslitaleiknum á morgun. Björgvin Páll Gústavsson og Arnór Þór Gunnarsson leika með Bergischer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×