Handbolti

Lovísa: Hélt ég yrði kannski valin um tvítugt | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hin 16 ára Lovísa Thompson, leikmaður Íslandsmeistara Gróttu, átti ekki von á því að kallið í íslenska landsliðið í handbolta kæmi svona snemma.

Lovísa, sem verður ekki 17 ára fyrr en í október, hefur átt stóran þátt í sigurgöngu Gróttu undanfarin tvö ár og var markahæsti leikmaður Seltirninga í úrslitakeppninni í ár. Að tímabilinu loknu var hún svo valin efnilegasti leikmaður Olís-deildar kvenna á lokahófi HSÍ, annað árið í röð.

Lovísa var svo valin í landsliðið á dögunum í fyrsta sinn en þessi öflugi leikmaður er í 19 manna hópi sem Ágúst Þór Jóhannsson valdi fyrir leikina gegn Frakklandi og Þýskalandi í undankeppni EM 2016, 1. og 5. júní næstkomandi.

Lovísa bjóst ekki við að vera valin í landsliðið á þessum tímapunkti á ferlinum.

„Nei, alls ekki. Þetta var langþráður draumur og ég hélt að ég yrði kannski valin um tvítugt,“ sagði Lovísa í kvöldfréttum Stöðvar 2 en hún var tekin tali á landsliðsæfingu í Mýrinni í Garðabæ þar sem Grótta hefur fagnað Íslandsmeistaratitlinum undanfarin tvö ár.

Lovísa er yngsti leikmaðurinn í íslenska hópnum en er hún tilbúin til að mæta sterkum liðum eins og Frakklandi og Þýskalandi?

„Það vantar pínu upp á líkamlega partinn, ég finn það bara hér á æfingunni þegar ég mæti þessum svakalegu varnarmönnum. En ef hausinn er í lagi getur maður gert allt,“ sagði Lovísa.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×