Körfubolti

Lonzo Ball endaði hjá Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lonzo Ball með Adam Silver, yfirmanni NBA-deildarinnar.
Lonzo Ball með Adam Silver, yfirmanni NBA-deildarinnar. Vísir/Getty
Leikstjórnandinn Lonzo Ball var í nótt valinn af LA Lakers í nýliðavali NBA-deildarinnar en þessi efnilegi leikmaður á aðeins eitt ár að baki í háskólaboltanum vestanhafs.

Lakers átti annan valrétt í valinu en Markelle Fultz var valinn fyrstur af Philadelphia 76ers.

Ball og faðir hans, LaVar Ball, eru nú þegar orðnir þekktir vestanhafs eftir að faðirinn sagði að sonurinn væri betri leikmaður en bæði Stephen Curry, stórstjórna meistaranna í Golden State Warriors, og LeBron James sem hefur unnið þrjá meistaratitla.

Ball eldri nýtti sér athyglina óspart og hefur verið tíður gestur í spjallþáttum um íþróttir vestanhafs. LaVar Ball er byrjaður að framleiða íþróttafatnað og skó í nafni sonarins en sem dæmi má nefna að skór Lonzo Ball eru nú til sölu á rúmar 50 þúsund krónur.

Lonzo Ball, sem er með 1,7 milljón fylgjendur á Instagram, hefur verið líkt við Magic Johnson sem er nú yfirmaður hjá Lakers.

„Hann er besti leikstjórnandi allra tíma. Ef ég næ helmingi jafn langt og hann þá veit ég að ég hef staðið mig vel.“

Ball var með 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik á eina tímabili sínu með UcLA-háskólanum, sem var met í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×