Viðskipti innlent

Lönduðu bara í næsta bæjarfélagi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson
Þorsteinn Már Baldvinsson
Í Noregi greinir Fiskeribladet Fiskaren frá því að norsk yfirvöld hafi neitað Samherja um löndunarleyfi á þorski við bryggju í Myre í Noregi. Fiskinn hafi átt að áframsenda í vinnslu á Íslandi.

Lögfræðideild PricewaterhousCoopers í Noregi er sagt hafa farið fram á viðræður við sjávarútvegsráðuneyti Norðmanna vegna málsins.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir norska fiskveiðiritið gera heldur meira úr málinu en efni standi til. „Þetta er eldgamalt mál. Við vorum þarna í febrúar og lönduðum bara annars staðar,“ segir hann.

Í gangi hafi verið vertíð og margir sem komast hafi viljað að í löndun. „Og þetta var ekkert mál.“ Landað hafi verið í Sortland í staðinn.

Þorsteinn Már segir að því fari fjarri að Samherji eigi í deilum við norsk yfirvöld vegna málsins, þótt vera kunni að gerð hafi verið einhver fyrirspurn.

Fram kemur í umfjöllun Fiskaren að löndunarstaðurinn í Myre þar sem Samherji hafi leyfi til að landa afla sínum hafi verið upptekin og ekki fengist leyfi til löndunar við almenna bryggju á staðnum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×