Lífið

Lokuð inni í þögn: „Ég hélt það myndi aldrei rætast úr mér“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kolbrún hefur aftur fengið trú á sjálfri sér og finnst allir vegir færir. Hún útskrifast í vor af leiklistarbraut Kvikmyndaskólans og langar að starfa við fagið í framtíðinni.
Kolbrún hefur aftur fengið trú á sjálfri sér og finnst allir vegir færir. Hún útskrifast í vor af leiklistarbraut Kvikmyndaskólans og langar að starfa við fagið í framtíðinni. vísir/ernir
Kolbrún Völkudóttir lá í þrjú ár inni á geðdeild án þess að geta tjáð sig almennilega eða skilið læknana vegna heyrnaleysis. Þess í stað var dælt í hana lyfjum og var hún lengi að byggja upp sjálfstraust eftir erfið mótunarár. Hún fékk þó loks kjark til að sækja um Kvikmyndaskólann og útskrifast af leiklistarbraut í vor. 



Það var mjög erfitt að finna tíma til að hitta Kolbrúnu vegna anna. Þessa dagana er hún að klára verkefni í Kvikmyndaskólanum þar sem hún stundar nám á leiklistarbraut og vinnur langt fram á kvöld á hverjum degi.

Við hittumst eftir einn slíkan vinnudag og ég spurði hvort hún yrði ekki of þreytt fyrir viðtal. „Ég verð aldrei þreytt,“ var svarið sem ég fékk. Ég komst fljótt að því að Kolbrún vill hafa nóg fyrir stafni. Hún býr ein með ellefu ára dóttur sinni, er í krefjandi leiklistarnámi og syngur á tónleikum allt árið um kring auk þess að stunda jóga þegar tími vinnst til.

Kolbrún er með kuðungsígræðslu sem gerir henni kleift að heyra hljóð en ekki skilja orð.
Þorði ekki í inntökuprófið

Kolbrún missti heyrnina þegar hún fékk heilahimnubólgu tveggja ára gömul. Hún var farin að tala og mynda ýmis hljóð og því hefur hún alltaf átt auðvelt með að tal þrátt fyrir heyrnarleysið. Hún les af vörum og svarar spurningum mínum vandræðalaust en táknmál er þó hennar móðurmál. En heyrir hún alls ekki neitt? 

„Ég er með kuðungsígræðslu sem gerir mér kleift að heyra hljóð en ég get ekki vitað hvaðan hljóðið berst og get ekki skilið orðin. Ég heyri átján tóna á meðan þú heyrir milljón. Ef við líkjum þessu við nótur á píanói, þá heyrir þú allar nóturnar en ég heyri bara fáeinar.“ 

Hún nær í tölvuna og leyfir mér að heyra hvernig hún heyrir. Það minnir á hljóðin sem maður heyrir þegar maður er í kafi í vatni. Ég hafði heyrt að Kolbrún syngi með Langholtskirkjukór og væri að fara að halda tónleika á Rosenberg og gat því ekki setið á mér að spyrja hvernig í ósköpunum hún gæti þá sungið ef hún heyrir ekki fleiri tóna en þetta. Þá skellir hún upp úr. 

„Þú ert eitthvað að misskilja. Ég syng ekki með rödd. Ég syng með táknmáli. Ég túlka tónlistina, læri textann, þýði yfir á táknmál og bæti við tilfinningum. Þetta snýst um líkamstjáningu og svipbrigði.“ 

Tjáningin hefur verið áhugamál Kolbrúnar frá barnæsku og hefur hana alltaf langað til að verða leikkona.

Hún útskrifast úr Kvikmyndaskólanum í vor en í langan tíma hafði hún enga trú á að draumur hennar myndi rætast. 

„Ég var búin að sækja um á leiklistarbraut Kvikmyndaskólans áður en þorði svo ekki að fara í inntökuprófið. Ég hélt að ég gæti ekki farið í þetta nám vegna heyrnarleysisins og ég hafði gengið í gegnum mikla erfiðleika á unglingsárum mínum sem hafði þau áhrif að ég hélt að það myndi aldrei rætast úr mér. Ári seinna píndi ég mig í prófin og komst inn. Ég var svo hissa. Ég átti svo innilega ekki von á því að komast í námið.“ 

Mæðgurnar á góðri stundu.
Lyfjagjöfin var læknamistök

Kolbrún barðist við mikið þunglyndi og kvíða á unglingsárum sem olli því að hún var lögð inn á geðdeild og var þar í þrjú ár. 

„Starfsmaður skóladagheimilisins í Heyrnleysingjaskólanum beitti mig kynferðislegu ofbeldi frá sex til tíu ára aldurs. Ég er ein af fimm stúlkum sem kærðu manninn þegar ég var þrettán ára. Upp frá þessu fór ég að finna fyrir miklum kvíða sem stigmagnaðist. Fyrir samræmdu prófin fór ég til dæmis alveg yfir um af kvíða.“

Á sautjánda ári lagðist Kolbrún inn á BUGL og síðar á geðdeild Landspítalans þegar hún varð átján ára og var þar til nítján ára aldurs. 

„Eftir vistunina á BUGL hafði þunglyndið og kvíðinn stóraukist frá því ég kom fyrst þangað inn og vanlíðanin var það mikil að ég var farin að skaða mig meira en ég gerði við innlögn. Frá BUGL fór ég inn á 32C, geðdeildina á Hringbraut, og þegar þangað var komið var ég orðin mjög veik. Á BUGL var ég sett á sterk lyf sem báru ekki tilætlaðan árangur. Ég reyndi að tjá mig, gerði tilraunir til að fá athygli en enginn skildi mig og enginn notaði táknmál. Ég þurfti að fá útrás, gerði það sem ég mátti ekki gera, alls kyns slæma hluti, og þá var brugðið á það ráð að bæta við lyfjaskammtana. Þegar ég lít til baka þá sé ég að þessi meðferðarúrræði hentuðu mér ekki og þetta var alls ekki rétti staðurinn fyrir mig. Þessi lyfjagjöf var að mínu mati ákveðin læknamistök.“ 

Kolbrún segist lítið muna eftir þessum tíma en henni finnst merkilegt hvað hún náði fljótt bata og styrkir það kenningu hennar um læknamistökin.

„Ég varð ólétt af Viktoríu dóttur minni nítján ára. Ég var á leiðinni í endurhæfingu í Svíþjóð til að læra að verða til aftur enda búin að vera sljó og á stofnunum á mjög mikilvægum mótunarárum. Þegar ég varð ólétt hætti ég á lyfjunum. Ég hef ekki verið á lyfjum síðan og ekki fundið vott af geðrænum vandamálum. Ég og fjölskylda mín sjáum nú svo skýrt hvað meðferðin var röng. Það er ekki til geðræn meðferð fyrir heyrnarlausa á Íslandi. Það hefði frekar átt að senda mig út þar sem slík meðferð er til. Ég átti ekki heima þarna og ég stend í þeirri trú að veikindin hafi orðið mun alvarlegri út af alltof mikilli lyfjagjöf.“ 

Í kvikmyndahlutverki í skólanum
Fann kjarkinn á ný 

Leiðir Kolbrúnar og barnsföður hennar skildi þegar dóttirin var tveggja ára. Síðan þá hafa mæðgurnar verið tvær í kotinu. 

„En ég er ekki einstæð móðir, heldur sjálfstæð móðir. Ég kalla þetta að vera sjálfstæð því þetta er ekki svo erfitt og ég geri bara allt sem þarf að gera. En við barnsfaðir minn erum góðir vinir og hann og konan hans taka Viktoríu mikið. Ég gæti aldrei verið í þessu námi ef þau væru ekki til staðar. Þau og fjölskylda mín hafa alveg bjargað mér.“

Kolbrún fór að vinna í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra við að kenna táknmál fljótlega eftir að hún fór fyrst út á vinnumarkaðinn.

„Það var stórt stökk fyrir mig. Ég missti af öllum skólaárunum og mér fannst ég ekki hafa neinn grunn. Ekki kunna neitt. En mér var kennt vel þarna og starfsreynslan efldi mig. Alveg þar til ég fékk kjark til að sækja um leiklistarnámið.“ 

Kolbrún verður önnur heyrnarlausa konan til að útskrifast sem leikkona á Íslandi. Fyrst fannst henni erfitt að byrja í náminu því það var svo langt síðan hún hafði verið í skóla og álagið er mikið sem fylgir því að læra leiklist. Það er mikið kafað ofan í sjálfið enda sjálfsþekking mikilvæg þegar það kemur að því að byggja upp persónur og túlka þær. Það hefur þó hjálpað henni að takast á við fortíðina og í dag er hún þakklát fyrir alla þá reynslu sem hún hefur fengið í lífinu enda hafi það gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag. 

Tinna táknmálsálfur
Hrósað fyrir góða hlustun 

Heyrnarleysið háir Kolbrúnu lítið í náminu. Það eru helst samskiptin sem geta orðið erfið og já, hún getur ekki tekið þátt á sama hátt og samnemendur í söngtímum. 

„Ég vildi óska þess að ég gæti sungið með röddinni en ég veit að ég get það ekki og mun aldrei geta það. Ég hef prófað það en, nei – það gengur ekki!“ segir Kolbrún ákveðin og grettir sig. „Einnig getur verið erfitt að tala saman í hóp því ég get ekki lesið af vörum þegar margir er að tala. Þá dett ég út og missi af svo miklu. Ég er reyndar með túlk yfir daginn en við erum oft að vinna að verkefnum fram eftir kvöldi. En fyrir utan samskipti og söng þá truflar heyrnarleysið mig ekkert. Hinir krakkarnir í bekknum eru betri í sumu og ég er betri í öðru. Mér er til dæmis hrósað af kennurunum fyrir að vera með svo góða hlustun. Sem er fyndið þar sem ég er sú eina sem er heyrnarlaus. En málið er að maður þarf að hlusta með meiru en bara eyrunum. Það þarf að hlusta með öllum líkamanum og vera einbeittur.“ 

Fyrir tökur á tónleikum kórs Langholtskirkju sem Kolbrún syngur með
Hendir púkanum burt 

Kolbrún er hæstánægð í skólanum og segir námið hafa eflt hana. Einmitt af því að það er mikil áskorun fyrir hana og í hvert skipti sem hún kemst yfir hindrun og sigrast á óttanum, þá styrkist hún.

„Mig langar að starfa við leiklist í framtíðinni, helst í Þjóðleikhúsinu. Kannski get ég ekki tekið að mér hefðbundin hlutverk en ég nota bara táknmál, hljóð eða leik hljóðlaust. Einnig langar mig að halda áfram að syngja með tónlistarmönnum og draumurinn er að syngja með Björk. Vissulega kemur stundum lítill púki á öxlina á mér og segir að ég geti ekki þetta og hitt. En ég er orðin mjög góð í að henda honum burt. Mig dreymir einnig aðra drauma og langar til dæmis að eignast fleiri börn í framtíðinni. Helst fimm. Nei, ég segi nú bara svona,“ bætir hún við hlæjandi en Kolbrún óx einmitt úr grasi í stórri fjölskyldu og á fjögur systkini.

Leitar að föður sínum

„Þau eru hálfsystkini mín. Mamma varð ólétt af mér sautján ára og pabbi minn er grískur. Leiðir þeirra skildi áður en ég kom í heiminn. Mamma ól mig upp ein þar til hún kynntist fósturpabba mínum. Ég hef gert tilraunir til að hafa samband við pabba minn, prófað að senda honum skilaboð á Facebook en engin svör fengið. Ég hefði ekkert á móti því að kynnast honum og fá til dæmis að vita hvort ég eigi systkini. Ég veit ekki hvort hann skilur ekki ensku eða hvort hann hefur bara ekki áhuga á að tala við mig. Hann veit að ég er til en hefur aldrei séð mig og veit ekkert um mig. Ætli ég birtist ekki bara einhvern tímann á dyraþrepinu hjá honum í Grikklandi. En það er bara svo asnalegt eitthvað að gera það og þurfa að hafa túlk með sér. Hann veit ekki einu sinni að ég er heyrnarlaus. Núna var ég næstum búin að segja að ég þori því ekki en jú, jú. Auðvitað get ég það alveg!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×