Erlent

Lokað á múslíma og gyðinga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gyðingum er meinaður aðgangur að Musterishæðinni.
Gyðingum er meinaður aðgangur að Musterishæðinni. fréttablaðið/AP
Ísraelsk stjórnvöld létu í gær loka öllum aðgangi að Musterishæðinni í Jerúsalem, þar sem helgustu staði bæði múslíma og gyðinga er að finna.

Mikil spenna hefur verið í borginni síðustu daga og vikur, einkum í kringum hina helgu staði í gamla bænum. Til átaka af einhverju tagi hefur komið nánast daglega.

Áður en svæðinu var lokað í gær hafði ísraelska lögreglan skotið Palestínumann, sem grunaður var um að hafa reynt kvöldið áður að myrða gyðing að nafni Yehuda Glick.

Glick særðist alvarlega, en hann hefur verið í fararbroddi harðsnúinna gyðinga sem krefjast þess að gyðingar fái aukinn aðgang að hinu helga svæði Musterishæðarinnar.

Musterishæðin hefur oft verið miðpunktur spennu í samskiptum Ísraela og Palestínumanna. Þar hófst seinni uppreisn Palestínumanna árið 2000 eftir að Ariel Sharon, sem þá var leiðtogi ísraelsku stjórnarandstöðunnar, hélt inn á svæði múslíma uppi á Musterishæðinni í fylgd öryggisvarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×