Handbolti

Lokabaráttan um síðasta sætið í úrslitakeppninni er í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Fram og FH í vetur.
Frá leik Fram og FH í vetur. Vísir/Andri Marinó
Lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta fer fram í kvöld en þar munu þrjú lið berjast um fjórða og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.

Haukar hafa tryggt sér deildarmeistaratitilinn og Eyjamenn fá heimavallarrétt í undanúrslitunum. Valsmenn eru öryggir með sæti í úrslitakeppnina en gætu dottið niður í fjórða sætið.

Framarar standa best að vígi af þeim þremur liðum sem eiga möguleika á því að fylgja Haukum, ÍBV og Val í úrslitakeppnina.

Fram er með eins stigs forskot á FH og tveggja stiga forskot á ÍR. ÍR-ingar eiga enn möguleika á því að komast í úrslitakeppnina þar sem þeir hafa unnið Fram tvisvar sinnum í þremur leikjum liðanna í vetur.

Fram tryggir sér sæti í úrslitakeppninni með sigri á Val og munu um leið taka þriðja sætið af Valsmönnum en liðin mætast klukkan 19.30 í Vodafone höllinni að Hlíðarenda.

FH þarf að vinna ÍR og treysta á það að Fram tapi stigum á móti Val. FH er líkt og ÍR með betri innbyrðisstöðu á móti Fram.

ÍR-ingar tryggja sér sæti í úrslitakeppninni með sigri á FH á heimavelli á sama tíma og Valsmenn vinna Fram á sínum heimavelli.

Það getur því margt gerst í kvöld og miðað við jafna og spennandi leiki í vetur þá eiga öll þrjú liðin, Fram, FH og ÍR, raunhæfa möguleika á því að verða með í úrslitakeppninni í ár.

Leikir kvöldsins í Olís-deild karla:

Haukar - ÍBV (19.30, Schenkerhöllin)

Valur - Fram (19.30, Vodafone höllin)    

ÍR - FH (19.30, Austurberg)    

Akureyri - HK (19.30, Höllin Akureyri)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×