Innlent

Lögreglustjóri braut gegn lögreglumanni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir
Sigríður Björk Guðjónsdóttir Vísir/Anton
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, braut gegn lögreglumanni með hegðun sinni. Þetta er niðurstaða vinnustaðasálfræðings sem innanríkisráðuneytið fékk til að fara yfir kvörtun lögreglumannsins undan hegðun Sigríðar. Hann segir það hafið yfir allan vafa að hún hafi brotið gegn honum, en að hegðunin geti ekki flokkast sem einelti, heldur frekar sem áreiti. RÚV greinir frá.

Lögreglumaðurinn kvartaði undan einelti Sigríðar Bjarkar í ágúst á síðasta ári í ítarlegu bréfi til innanríkisráðuneytisins. Í bréfinu sagði meðal annars að hann og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna framgöngu Sigríðar og að embætti lögreglustjórans hafi borgað fyrir meðferðina.

Ráðuneytið skipaði svo vinnustaðasálfræðing í byrjun september til að fara yfir málið og ræddi hann við lögreglumanninn og lögreglustjórann auk 16 annarra. Í skýrslu sálfræðingsins, sem skilað var í febrúar, eru tilgreind tólf atvik. Var það mat sálfræðingsins að ekki væri hægt að flokka níu þeirra sem einelti og var þeim vísað frá. Hann taldi það hins vegar hafið yfir allan vafa að í þremur atvikum hefði Sigríður Björk brotið gegn lögreglumanninum.

Skammir með hávaða og æsingi

Í einu tilvikinu skammaði Sigríður Björk lögreglumanninn og ávítti hann með hávaða og æsingi og hlustaði ekki á hann. Í öðru tilviki sagði Sigríður að lögreglumaðurinn gæti ekki lengur gegnt stöðu lögreglufulltrúa innan miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar og það þriðja sneri að ferð á lögreglunámskeið í Búdapest sem lögreglumaðurinn átti að fara á en Sigríður Björk ákvað a hann færi ekki.

Sálfræðingurinn skilgreinir þessa hegðun lögreglustjórans sem áreitni, sem fellur undir viðmið birtingarmyndar eineltis á vinnustað. Það er hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta.

Eftir að hafa farið yfir skýrsluna taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að grípa til frekari aðgerða en beindi þeim tilmælum til lögreglustjórans að gæta að framkomu sinni gagnvart starfsmönnum embættisins.

Líkt og greint hefur verið frá hafa tilfæringar og brottvísanir í starfi verið óvenju tíðar hjá lögreglu undanfarin misseri og valdið yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu erfiðleikum. Jafnframt hefur verið viðloðandi samskiptavandi yfirstjórnenda hjá lögreglunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×