Skoðun

Lögreglumenntun á háskólastigi

Eyrún Eyþórsdóttir skrifar
Alþingi samþykkti á vordögum frumvarp til breytingar á lögreglulögum og var þar farið fram á endurskoðun á skipulagi og starfsemi Lögregluskólans. Á meðan beðið er eftir skýrslu starfshópsins sem fenginn var til verksins er gott að fjalla stuttlega um hvað málið varðar.

Barn síns tíma

Lögregluskólinn er eyland sem hefur staðið utan menntakerfisins og ekki lotið neins konar eftirliti eða krafna varðandi gæði. Námið hefur verið metið til eininga á framhaldsskólastigi þó svo þær einingar hafi illa fengist metnar inn í aðra skóla. Fastráðnir kennarar skólans eru ekki með námslegan bakgrunn eða starfsréttindi til kennslu og þar er ekki að finna faglegt námsefni. Helstu aðgangskröfurnar eru að hafa lokið tveimur árum í framhaldskóla, vera orðinn tuttugu ára og geta í íslensku og þreki er metin. Kröfurnar útiloka hóp fólks frá lögreglunáminu, t.d. lesblinda, innflytjendur sem hafa ekki náð fullum tökum á íslensku og fatlaða. Þá hefur Lögregluskólinn, eðli málsins samkvæmt, ekki staðið við lögskipað hlutverk sitt sem fræða- og rannsóknarsetur þar sem ekki hefur verið lögð áhersla á að nýta háskólamenntun sem lögreglumenn hafa aflað sér né hefur skólinn haft yfir akademískri þekkingu að ráða.

Aukin menntun lögreglumanna

Undanfarin ár hafa hugmyndir fólks gagnvart menntun lögreglunnar breyst samfara hröðum þjóðfélagslegum og hnattrænum breytingum. Til dæmis fyrirfinnast ekki lengur landamæri þegar kemur að glæpastarfsemi, net- og tölvuheimurinn er orðinn svo flókinn að það er ekki fyrir leikmenn að skilja, kynferðisofbeldi er undir áhrifum klámvæðingar, glæpir eru skipulagðari, fíkniefnaframleiðsla hefur fest rætur hérlendis og fólk er orðið að söluvöru. Fjölbreytni í trúarbrögðum hefur aukist, fjölmenning er meiri, lífsviðhorf fólks til kyns, uppruna, kynhneigðar og fleira hefur breyst. Og meðvitund fólks um eigin borgaraleg réttindi hefur aukist. Allt kallar þetta á aukna sérhæfingu lögreglufólks auk þess sem lögreglan þarf ekki aðeins að hafa fullan skilning á fjölbreytileikanum heldur einnig endurspegla hann.

Nokkur lögregluembætti og deildir hafa ráðið til sín háskólamenntað fólk í sérhæfð verkefni. Það má álíta að það sé gert vegna þess að talið er að lögreglumenntun dugi ekki til að mæta þeirri sérhæfingu sem þarf. Líklega gekk sjónarmið sérstaks saksóknara út á það að þekking meðal lögreglumanna væri ekki til staðar þegar kom að flóknum fjármálagjörningum og því réði hann fólk með viðskiptafræðimenntun. Þá má spyrja af hverju þetta sjónarmið er ekki uppi þegar kemur að öðrum málaflokkum. Af hverju er ekki ráðnir tölvunarfræðingar þegar kemur að tölvurannsóknum eða sérfræðingum í kynbundnu ofbeldi þegar kemur að rannsóknum á kynferðisbrotum.

Í nútímasamfélagi er háskólamenntun orðin almennari og meiri kröfur eru gerðar til fólks á vinnumarkaðinum. Kröfur til lögreglunnar eiga ekki að vera minni en kröfur til annarra hópa – heldur frekar á hinn veginn. Á ráðstefnu sem Landssamband lögreglumanna stóð fyrir árið 2013 um menntun lögreglumanna kom fram að Lögregluskólinn standi langt að baki lögregluskólum annarra norrænna ríkja þar sem lögreglunám er komið á háskólastig. Þar er ekki lengur til umræðu hvort nám eigi að vera á háskólastigi heldur uppbygging mastersnáms og jafnvel doktorsnámi skólanna.

Lögreglunámið í Háskóla Íslands

Lögreglunámið gæti verið þverfaglegt grunnnám í Háskóla Íslands þar sem inngangskrafan væri stúdentspróf. Háskólinn býður upp á nám í lögfræði og félagsvísindum sem ættu að vera grunnstoðir lögreglunáms. Auk þess væri hægt að taka ýmiss konar námskeið svo sem tölvunarfræði, efnafræði, viðskiptafræði og sálfræði sem mundi efla sameiginlegan þekkingargrunn lögreglumanna og verða til þess að fjölbreyttari hópur fólks menntaði sig á þessu sviði. Líkt og annað verktengt háskólanám gæti starfsnám lögreglu farið fram undir hatti háskólans. Þá þyrfti að vera hægt að fá sérhæfingu eftir grunnnámið, hvort sem það væri í sakamálarannsóknum eða til stjórnunarstarfa.

Samfélagslegt mál

Menntun lögreglumanna hefur sjaldan verði hluti af þjóðfélagslegri umræðu en er engu að síður samfélagsleg málefni. Lögreglan á Íslandi stendur sig yfirleitt með sóma en samfélagið breytist ört og samfara því vinnuumhverfi lögreglumanna. Aukin menntun er mikilvæg fyrir lögreglumenn til að auka færni sína, þekkingu og getu. Þannig geta þeir skilað faglegra starfi og orðið reiðubúnir til að mæta áskorunum framtíðarinnar og ekki síst þjónustu við samfélag sitt.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×